136. löggjafarþing — 63. fundur,  20. des. 2008.

kolvetnisstarfsemi.

152. mál
[00:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og líka álit hennar á málinu. Það er eitt sem ég vil nefna í upphafi, það er rétt að það spannst mikil umræða í nefndinni um nafn frumvarpsins og líka um nafn laganna, „kolvetni“. Eins og hv. þingmaður nefndi er það rétt að við höfum hingað til kannski tengt það við Atkins-kúrinn sem þýðir að þá á maður að skera niður öll kolvetni og bara éta prótein.

Einhverra hluta held ég samt að heimurinn verði fyrst kominn raunverulega á Atkins-kúrinn þegar við hættum að nota olíu og jarðgas miðað við þetta allt saman. Ég held hins vegar að það sé mjög langt í það.

Ég er sammála hv. þingmanni um að við þurfum að gæta hófs í allri umræðu um þetta. Það er einmitt sem þetta mál snýst um, þ.e. að við klárum að gera lagasetninguna þannig úr garði að við getum hafið rannsóknir á því hvort það sé kolvetni, eða hvað sem menn vilja kalla það, uppi á Drekasvæði. Það er það sem þetta mál snýst um.

Hv. þingmaður talar mikið um það að hér hafi ekki gefist færi á að ræða málin almennilega. Ég bendi á að þetta mál var fyrst lagt fram hér á þingi af hæstv. iðnaðarráðherra og mælt fyrir því 21. nóvember. Það er heill mánuður síðan.

Þetta mál hefur verið í vinnslu í hv. iðnaðarnefnd. Við kölluðum til alla þá aðila sem hafa lagt fram umsagnir um málið. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hefur ekki beðið um neinn aukalega til nefndarinnar umfram þá sem kallaðir voru til. Við leggjum fram 15 breytingartillögur. Við erum búin að liggja yfir þessu máli í heilan mánuð þannig að (Forseti hringir.) þetta er ekki illa unnið mál þó að hratt hafi farið á einum mánuði. Það er verið að vinna þetta vel. Breytingartillögurnar sýna það líka.