136. löggjafarþing — 63. fundur,  20. des. 2008.

kolvetnisstarfsemi.

152. mál
[00:27]
Horfa

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna kolvetnisstarfsemi. Formaður nefndarinnar hefur farið ítarlega yfir þær breytingar sem nefndin gerði á frumvarpinu. Þær voru fjölmargar og ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa talað á undan mér, ég er sammála þeim og tel að allar þessar breytingar séu til mikilla bóta.

Ég ætla að nota tíma minn til að ræða um þau áhrif sem rannsóknir og vonandi vinnsla síðar meir hefur á atvinnumál okkar Íslendinga ef olía og gas finnst í vinnanlegu magni á Drekasvæðinu. Það munu skapast ný atvinnutækifæri á landi og má í því sambandi segja að hagsmunir byggða á Norður- og Austurlandi séu töluverðir. Það þarf strax og leyfum er úthlutað til rannsóknar og vinnslu kolvetnis að gæta þess að nýting auðlinda sé hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og tekið sé tillit til umhverfissjónarmiða.

Við undirbúning frumvarpsins var leitað til Noregs og Færeyja og byggt á þeirra miklu reynslu. Eins og allir vita hafa Norðmenn mjög mikla reynslu og þekkingu í vinnslu olíu sem hefur byggst upp í áratugi. Færeyingar eru hins vegar komnir styttra á leið, þeir gáfu út fyrsta rannsóknarleyfið á árinu 2000 og enn hefur ekki fundist olía í vinnanlegu magni. Þrátt fyrir það hafa Færeyingar byggt upp hjá sér mikla þekkingu og fengið mikla reynslu nú þegar með starfsemi sem felst í þjónustu við rannsóknarskipin.

Fyrirtæki eitt sem stundar þessa starfsemi í Færeyjum er nú þegar orðið það öflugt að það er farið að stunda þessa starfsemi og bjóða þessa þjónustu um allan heim. Meðal annars eru skip á þeirra vegum að störfum í Mexíkóflóa og víðar með slíka þjónustu svo dæmi séu tekin. Útgerðarmenn í Færeyjum sáu ný tækifæri til að nýta skip sín með öðrum hætti en til hefðbundinna fiskveiða og margir hverjir fóru þá leið að breyta fiskiskipum í skip sem hentuðu til þjónustu við rannsóknar- og vinnsluskip. Þegar Færeyingar buðu út fyrstu rannsóknarleyfin voru þeir á svipuðum stað og við erum núna, höfðu ekki reynsluna en hafa nú sannarlega byggt hana upp á þeim tíma sem liðinn er.

Það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir okkur Íslendinga að við nýtum okkur alla þá möguleika sem bjóðast til atvinnuuppbyggingar í tengslum við þennan iðnað og á þetta sérstaklega við um byggðir á Norðausturlandi. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að taka þátt í þessu verkefni frá byrjun. Með því byggist upp þekking og reynsla sem mun nýtast mjög vel þegar og ef á Drekasvæðinu verður farið að vinna olíu og gas innan kannski 8–10 ára.

Þá mun þjónusta við iðnaðinn aukast verulega en hann er samt töluverður á því tímabili sem rannsókn er í gangi. Skipin þurfa vistir, varahluti, rekstrarvörur og vinnuafl. Þess vegna er mjög mikilvægt að öll þessi þjónusta fari í gegnum íslenska höfn og eru lagðar til breytingar á frumvarpinu sem lúta að því að tryggja það og sett inn skilyrði varðandi skipulag leyfishafa og starfsemi hans hér á landi. Lögð er til sú breyting að kveðið verði á um að leyfishafi skuli hafa skipulag sem tryggi sjálfstæða stjórnun og umsjón framkvæmda frá Íslandi á öllum þáttum tengdum kolvetnisstarfsemi sinni hér á landi. Í þessu felst öll umsýsla og þjónusta við leyfishafa og að áhafnarskipti fari einnig fram í gegnum Ísland. Þetta er mjög mikilvægt í lögunum að mínu mati.

Fyrirtæki í þessum iðnaði úti um allan heim vita að í hverju landi gilda mismunandi lög um þessa starfsemi sem fyrirtækin þurfa að fara eftir. Þess vegna er enn mikilvægara að lögin kveði skýrt á um það hvernig fyrirkomulagið á að vera hér hjá okkur í þessu mikilvæga máli. Þessa leið hafa bæði Norðmenn og Færeyingar farið.

Í Noregi eru í dag 70–80% nýsmíða og breytinga á skipum tengd olíuiðnaði og u.þ.b. 7.000 skip um allan heim eru í þjónustu við olíuiðnaðinn. Hverju skipi tengist fjöldi starfsmanna sem þurfa þjónustu.

Tækifæri sveitarfélaga á Norður- og Austurlandi eru því mikil til atvinnuuppbyggingar á þessu sviði fyrir utan allt umstang í kringum áhafnarskipti en þá þarf þyrluþjónustu því að almennt er skipt um áhöfn á skipum með aðstoð þyrlu. Þjónustan við rannsóknarskip og hafstöðvar er vöruflutningar á hafi og geta ferðir verið mjög tíðar milli lands og skipa með vistir og búnað.

Virðulegi forseti. Eflaust finnst okkur olíuvinnsla á íslensku landgrunni fjarlægur draumur en ef og þegar það gerist þurfum við að vera reiðubúin að nýta þau atvinnutækifæri sem við það skapast alveg frá byrjun. Með því öflum við okkur þekkingar og reynslu í nýrri atvinnugrein sem mun skapa ný störf á landsvæði sem hefur átt undir högg að sækja.