136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[09:59]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2008 er að koma til 2. umr. Það kemur óbreytt frá 1. umr. þannig að segja má að að því leyti til hafi það ekki versnað. [Hlátur í þingsal.] Engar nýjar tillögur hafa komið inn frá ríkisstjórninni. (Gripið fram í: Góður þessi.) Hins vegar er athyglisvert hið mikla stjórnleysi og óreiða sem virðist ríkja af hálfu ríkisstjórnarinnar við gerð fjárlaga. Takið t.d. eftir því að við afgreiðum fjáraukalög, aðalumræðu fjáraukalaga á árinu, án þess að minnst sé á Icesave-reikninga, hvort ábyrgðin þar gæti verið 150 milljarðar, 200 milljarðar, 500 milljarðar, 600 milljarðar, 700 milljarðar, skuldbindingar á árinu. Hins vegar ræðum við mjög ítarlega um halla á sjúkrahúsunum upp á 10–15 millj. Það vantar (Gripið fram í.) alla hina stóru og afdrifaríku þætti í þetta frumvarp. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Því munum við, herra forseti, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sitja hjá við afgreiðsluna. (Forseti hringir.)