136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[10:53]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég byrja á því að óska eftir því við forseta að þeir tveir ráðherrar, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra, sem mesta ábyrgð bera á þessu máli mæti og verði viðstaddir umræðuna. Mér finnst þá vanta til umræðunnar, sérstaklega í ljósi þess hver þátttaka eða aðkoma þeirra að málinu hefur verið.

Fyrir rúmum mánuði eða 22. nóvember héldu þessir tveir ráðherrar blaðamannafund og tilkynntu þær breytingar sem þeir höfðu komið sér saman um að yrðu gerðar á eftirlaunum alþingismanna o.fl. Mér finnst ekki úr vegi að þeir mæti til þingsins og geri grein fyrir sjónarmiðum sínum við þingið. Fyrst þingið er málsaðili sem þessir tveir ráðherrar töldu sig hafa stöðu til að taka ákvörðun fyrir og tilkynna það fjölmiðlum finnst mér að þeir eigi að sýna okkur þann sóma að mæta til þings og ræða við okkur um þetta mál.

Þetta mál sem hefur verið eitt það umdeildasta í íslenskum þjóðmálum undanfarin fimm ár á meira skilið en þeir sem mest hafa látið það til sín taka hverfi af vettvangi þegar það kemur til umræðu. Ég fer fram á að þeir komi til umræðunnar, virðulegi forseti, verði hér, taki þátt í henni og geri okkur grein fyrir sjónarmiðum sínum. Mér finnst það algert lágmark að þeir sem eru gerendur í málinu standi fyrir máli sínu gagnvart þeim m.a. sem það snýr að.

Ég minni á að þegar rædd var ný heildarlöggjöf um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins fyrir 12 árum, í desember 1996, var þáverandi fjármálaráðherra, Friðrik Sophusson, spurður um afstöðu sína til þess hvernig lífeyriskjörum alþingismanna og ráðherra ætti að vera háttað. Hann fór yfir það hver skoðun hans á því máli væri og sagði: Það er ekki mitt mál að flytja tillögur um lífeyrisréttindi alþingismanna. Ég lít svo á, sagði þáverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, að það sé málefni forseta Alþingis að leiða starf um það hvernig menn kjósa að skipa þeim málum og bera fram tillögur um það. Það hefur breyst nú 12 árum síðar að það er ekki lengur afstaða forustumanna Sjálfstæðisflokksins að það sé viðfangsefni forseta Alþingis að leiða það starf og bera fram tillögur um hvernig skipa eigi málum á Alþingi varðandi alþingismenn sjálfa heldur hafa forustumenn ríkisstjórnarinnar tekið sér það vald í sínar hendur og tilkynna þinginu á blaðamannafundi hvernig þetta eigi að vera. Þeir mæta þó ekki til umræðunnar sjálfir nema tilkallaðir, boðaðir til umræðunnar eins og menn eru boðaðir til dómstóla. Þessir tveir ágætu ráðherrar voru hvergi sjáanlegir við 1. umr. málsins, ekki fremur en fuglinn fljúgandi.

Mér finnst í þessu fólgin óvirðing við þingið, lítilsvirðing við stjórnmálin sem umræðuvettvang og lítið gert úr Alþingi sjálfu með því að ætla því að taka við því sem að því er rétt og láta sér það lynda án þess að eiga einu sinni orðaskipti við þá sem að málinu standa og þeir komi upp í ræðustól til að fara yfir efnisatriðið með okkur til að útskýra hvers vegna þeir leggja þetta til. Ég tel það grundvallaratriði að menn manni sig upp í að gera slíkt. Ég tel að Alþingi eigi ekki að láta koma svona fram við sig og eigi ekki að þola það, hvorki þessum ráðherrum né öðrum, svona framkomu. Þetta er að mínu viti spegilmynd af þróuninni sem orðið hefur í íslenskum stjórnmálum á síðustu 12 árum frá því að varaformaður Sjálfstæðisflokksins stóð í þessum ræðustól og sagði: Það er ekki verkefni fjármálaráðherra að leggja fyrir þingið tillögur um lífeyrisréttindi alþingismanna. Það er verkefni forseta þingsins.

Þróunin þessi 12 ár eru foringjastjórnmálin, þróunin þar sem æ meira af pólitísku valdi hefur verið dregið í hendur á forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna á hverjum tíma, þróun sem átti sér stað í tíð Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar. En ég hélt að þessi þróun mundi breytast með nýju fólki og að nokkru leyti nýjum flokkum en enn sem komið er sé ég engin merki þess. Ég sé bara sömu foringjastjórnmálin í báðum ríkisstjórnarflokkunum um þessar mundir. Þeir tala við þingið alveg eins og Davíð Oddsson gerði og alveg eins og Halldór Ásgrímsson gerði. Ég sé engan mun á nema kannski helst þann að það eru meiri foringjastjórnmál í þessu máli en finna má í mörgum öðrum á umliðnum 12 árum. Þessari þróun verður þingið að snúa við og þingið snýr ekki við þessari þróun ef það lætur það viðgangast að búið sé þannig að því í kjörum langt undir því sem verið hefur og langt undir því sem það ágæta fólk sem nú situr á ráðherrabekkjunum býður því fólki sem það vill hafa í vinnu. Hvernig væri t.d. að hæstv. utanríkisráðherra upplýsti þingheim um hvaða laun ráðherrann greiðir sendiherranum sem hann réði um daginn?

Miðað við þær upplýsingar sem ég hef eru laun sendiherra um 627 þús. með 15–20 einingum ofan á, í heildina 750 þús. kr. á mánuði. Laun alþingismanna eru 560 þús. kr. plús — við skulum sjá til með það, virðulegi forseti. En ef þetta eru þau laun sem þessir ágætu ráðherrar bjóða fólki sem þeir vilja hafa í vinnu, hvort sem það eru sendiherrar eða skrifstofustjórar því að það er mjög svipað — ég er ekki að miða við hæst launaða eða æðsta embættisfólk ráðuneytanna, ég er ekki að miða við ráðuneytisstjóra heldur millifólk og þingmenn eru langt undir því. Ef þetta eru launin sem ráðherrarnir telja eðlilegt að greiða þessu fólki, þá spyr ég: Hvers vegna er ekki eðlilegt að greiða þingmönnum sambærileg laun? Hvar er viðmiðunin hjá þessum tveimur ágætu ráðherrum?

Nú kunna þeir að segja og það er nokkuð til í því að lífeyrisréttindin sem þingmenn hafa búið við eru betri en almennt gerist. Það er rétt og það má meta þau til verðs og til launa. En þá segi ég: Það sem er verið að gera hér er að verið er að færa lífeyrisréttindi alþingismanna niður í það sama og væntanlega er hjá þeim stéttum sem ég tók til viðmiðunar. Ég hef að vísu ekki kannað lífeyrisréttindi þeirra, ég geng út frá því að þeir séu í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Gott og vel. Ef við færum lífeyrisréttindi alþingismanna niður í það hljóta menn að ætla að hafa launakjör alþingismanna á sama stað og sendiherra og skrifstofustjóra í ráðuneytunum, um 700–750 þús. kr. Það hlýtur þá að vera viðmiðunin. Það er ekki bara hægt að lækka laun alþingismanna eða kjör þeirra og láta þá standa eftir með þriðjungi lakari launakjör en kjör meðalembættismanna hjá ríkinu. Ef meiningin er að þingmenn eigi að vera svona langt undir þessari viðmiðun sem má deila um hvort sé rétt, hvort ekki eigi að taka hærri viðmiðun, eru menn einfaldlega að vinna að því að brjóta niður þingið sem stofnun.

Það er ekkert annað sem vakir fyrir mönnum en að gera þingið veikara vegna þess að það dregur ekki að fólkið sem við þurfum að fá til þings ef það fólk sem við sjáum að er mikill fengur í að komist á þing getur fengið vinnu víðast hvar á miklu hærri launum og meðal annars hjá ráðherrunum sjálfum. Hverjir eiga að glíma við ráðherrana við þessar aðstæður? Sjá menn ekki hvað er verið að gera? Það er verið að veikja þingið, það er verið að veikja löggjafarvaldið, það er verið að styrkja ríkisstjórnina. Það er verið að styrkja framkvæmdarvaldið. Það er það sem verið er að gera, virðulegi forseti.

Ég hef engar sérstakar skoðanir eða áhuga á því að lífeyriskjör alþingismanna eigi að vera með tilteknum hætti, svona eða á hinn veginn. Mér er alveg sama þó að þau séu eins og gerist í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, það er ekki málið. Það sem ég segi er að heildarkjörin eiga að vera það góð að þau standist einhvern samanburð við viðmiðunarhópa sem menn taka til samanburðar. Þau eiga að vera hófleg en þau eiga að vera góð. Staðreyndin er sú að þau eru hvorugt og þau verða það örugglega ekki ef þessi breyting nær fram að ganga og ekkert annað gerist í framhaldinu. Halda menn að þessir ágætu ráðherrar muni nú í framhaldi af því þegar við höfum samþykkt að lækka launin okkar með frumvarpi hér áðan, fara í Landspítalann og lækka launin hjá læknunum sem eru með eina milljón og upp í tvær milljónir á mánuði? Ég læt mér ekki detta í hug að það hafist í gegn. Ég held að eftir þessa aðgerð verði það tiltölulega fámennur hópur opinberra starfsmanna sem munu lækka launin sín en alls ekki þeir sem eru hæst launaðir.

Ætla menn að lækka laun ráðuneytisstjóra um 10%, 15 eða 20%? Ég held að það verði allt í skötulíki og menn geta ekki lækkað samningsbundin laun, það sýnist mér vera alveg vonlaust mál. Ég á eftir að sjá hv. þm. Ögmund Jónasson standa upp og tala fyrir því að hálaunamenn lækki launin sín, séu þau laun á annað borð samningsbundin. Ég er þegar farinn að heyra hann segja að það eigi ekki að hreyfa við samningum og ég hugsa að flestir taki undir að það eigi ekki að hreyfa við samningum. En hver er þá ávinningurinn, virðulegi forseti, þegar menn hafa lækkað laun alþingismanna og eftirlaunaréttindi þeirra? Hvar standa menn með þingið í þessari stöðu? Jú, þeir sitja úti í sal og mæna á ráðherrana og bíða eftir því að þeir komist eitthvað áfram í pólitíkinni. Hvar verður þá staðfestan sem þarf að vera í hverju þingi af fólki með reynslu og þekkingu og kunnáttu og kjark til að standa á móti framkvæmdarvaldinu á hverjum tíma og laga málin sem þarf að laga, stoppa málin sem þarf að stoppa? Hvað verður um það, virðulegi forseti?

Mér finnst að það hafi orðið mikil breyting á Alþingi á síðasta áratug og hún er ekki öll til bóta þó að fólkið allt sé gott. Þingið hefur veikst. Þingið hefur veikst mjög mikið og það er, held ég, eitt af því sem almenningur er að velta fyrir sér í kjölfar hruns bankanna og spyr: Hvað er það sem farið hefur á rangan veg á síðustu árum? Hvað er það sem þarf að breytast? Eitt af því sem fólk segir er: Það er þingið sjálft. Það vinnur ekki vinnuna sína. Það er nokkuð til í því. Við vinnum ekki alltaf vinnuna okkar. Við vinnum ekki vinnuna okkar þegar ráðherrar koma með mál sem gerð eru að lögum á sama sólarhring, daginn eftir eða á þriðja degi. Það höfum við svo oft brennt okkur á á undanförnum árum. Þó að aðstæður kunni oft að vera þannig að það verði að vinna hratt er vitað að þegar unnið er hratt er hætta á mistökum og þau hafa orðið. Stundum hafa ekki orðið mistök, stundum hafa menn ekki viljað vinna vinnuna sína. Hver ætlar að standa því upp og halda því fram að hv. allsherjarnefnd hafi unnið vinnuna sína í sambandi við þetta eftirlaunafrumvarp? Ég ætla ekki að segja að formaður nefndarinnar geti ekki unnið sitt verk. Ég veit að hann er góður þingmaður. En hann er í þeirri stöðu að honum er sagt: Þú átt að taka málið út í dag. Það er pólitísk niðurstaða forustumanna stjórnarflokkanna og menn eru í þeirri stöðu að þeir segja: Já, ég verð að gera það. Þannig er staðan, virðulegi forseti.

Í þessu eftirlaunamáli eru margar rangfærslur sem farið hefur verið með, þar á meðal hæstv. utanríkisráðherra sem hefur haft miklar skoðanir á þessu máli gegnum árin og sagði t.d. á landsfundi Samfylkingarinnar í aprílmánuði 2002, með leyfi forseta:

„Í árslok 2003 var friður rofinn í íslensku samfélagi með lagasetningu sem færði ráðamönnum ríkisins eftirlaun langt umfram það sem almennt gerist.“

Ég fór yfir málið í 1. umr. um það hvernig breytingin var gagnvart alþingismönnum. Hún færði þeim ekki eitt eða neitt, virðulegi forseti. Hún skerti eftirlaun alþingismanna, mismunandi mikið en hún skerti þau. Eftir þá lagabreytingu árið 2003 fá þingmenn minna en þurfa að borga meira fyrir það. Menn fá minna fyrir meira. Mér finnst ekki að forustumenn í stjórnmálum eigi að tala svona eins og ég hef vitnað til vegna þess að hér er ekki farið með rétt mál.

Síðan hefur verið mikil gagnrýni á að þingmenn og ráðherrar fyrrverandi geti tekið laun á sama tíma og þeir þiggja eftirlaun hjá ríkinu. Í þessu er líka mikið sagt sem ekki er rétt. Ég ætla að eyða síðustu mínútum mínum í að fara aðeins yfir það mál.

Ég vil minna á að í gildandi lögum sem sett voru 2003 voru einmitt sett ákvæði sem skerða eftirlaun hafi menn aðrar tekjur. Það var gert með þeim rökstuðningi að í þessum lögum væri verið að ákvarða eftirlaunarétt ráðherra og þingmanna sem var sambærilegur hvað ráðherra varðar við það sem ákveðið hafði verið löngu áður. Hann var lakari hjá þingmönnum en verið hafði en var þó betri en almennt gengur og gerist. Það er alveg rétt. Eftirlaun þeirra hafa verið betri en gengur og gerist og það er enginn feluleikur með það. En einmitt vegna þess var ákveðið að um þessa skekkju gilti það sem ekki gildir um aðra. Það gildir ekki um aðra að þegar menn eiga rétt á lífeyri skerðist hann vegna annarra tekna. Almenna reglan er sú að réttindaávinnslu njóta menn þegar þeir hafa tök á að taka út laun sín burt séð frá öðrum tekjum. Það er meginreglan í eftirlaunarétti. Frávikið varðandi alþingismenn, ráðherra og aðra sem undir þessi lög heyra vegna þess að þar er um að ræða betri réttindi. Í gildandi lögum er fjallað um þá sem nýta sér ákvæði um að hætta snemma og fara á eftirlaun 55 ára sem er það fyrsta sem mögulegt er sem reyndar enginn þingmaður getur nýtt sér nema hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Sá sem nýtir sér það og fer svo að vinna strax í öðru starfi, hvort sem er hjá ríkinu eða einhverjum öðrum, það skiptir engu máli, verður að þola skerðingu á áunnum eftirlaunum um 0,5% fyrir hvern mánuð sem vantar upp á 65 ára aldur. Nýti hann sér réttindin til hins ýtrasta, sá sem hættir á þingi 55 ára og fer beint í starf, skerðast eftirlaunin um 60%. Það er enginn sem fær full eftirlaun og full laun fyrir sitt starf. Í þessu hefur margt verið sagt sem ekki er rétt.

Meðalþingaldur er um 11 ár. Ég reiknaði að gamni mínu dæmið fyrir þingmann sem er búinn að sitja í 10 ár. Hann situr eitthvert árabil, hættir og fer að vinna önnur störf. Svo þegar hann er orðinn 65 ára á hann rétt á sínum eftirlaunum og þau eru samkvæmt þessu frumvarpi þá 23,75% eða 133 þús. kr.

Samkvæmt gildandi lögum getur hann fengið þessi eftirlaun eftir 65 ára aldur en samkvæmt þeim lögum sem núna eiga að taka gildi munu eftirlaunin sem hann fær skerðast um þau laun sem hann hefur. Sá sem er t.d. 68 ára, hefur setið á þingi í 10 ár, kannski fyrir 20 árum síðan er á launum og fær fyrir það 250 þús. kr. það er þá verið að taka af honum allan eftirlaunaréttinn? Hvaða réttlæti er í því, virðulegi forseti, að svipta menn þeim réttindum sem þeir hafa áunnið sér sem á við um flesta þingmenn? Það eru aðeins þeir sem setið hafa mjög lengi á þingi sem geta haldið eftir einhverjum hluta af eftirlaunum sínum.