136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[11:41]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er svolítið erfitt að átta sig á hv. þingmanni stundum. Hann er höfundur að ýmsu skemmtilegu í umræðum um lífeyrissjóði og bankamál. Einu sinni var mikið talað um fé án hirðis. Við höfum fylgst með því að undanförnu hvernig hirðingjarnir hafa farið með féð. (PHB: Stjórnir lífeyrissjóðanna.)

Varðandi það áfall sem lífeyrissjóðirnir hafa orðið fyrir er það mjög mikið, en enginn veit hvað það er og verður í reynd. Menn tala um 15–25% en við skulum ekki gleyma því að þegar litið er á það áfall sem þessir sjóðir verða fyrir verður að horfa á það í réttu samhengi. Það verður að horfa á það í samhengi við bóluna sem orðið hefur vegna þess að menn miða þá iðulega við mjög hátt gengi bréfa sem síðan fellur, gengi sem var mjög óraunhæft. Fallið í prósentum talið verður þannig stærra en ella. (PHB: Hvað þarf að skerða hjá venjulegum lífeyrissjóði?) Ég er að segja að það er ekki vitað hvert áfallið verður, menn horfa ekki enn upp á skerðingu hjá lífeyrissjóðunum og við vonum að sjálfsögðu að svo verði ekki. Hvort á að vera breytileg stærð, kaupmáttur launa eða lífeyrisréttindin, er bara spurning, álitamál, hvar menn vilja standa í þessu efni. Ég hef viljað leggja áherslu á föst lífeyrisréttindi.

Varðandi launakjör hjá þeim sem sitja í stjórnum eins og hjá LSR hygg ég að launin hafi verið rúmar 60 þús. kr. og síðan álag fyrir stjórnarformennsku og varaformann stjórnar. Við getum séð á heimasíðu minni hvað þetta er í krónum og aurum talið. Ég hef alltaf gert grein fyrir því hvað mig varðar sérstaklega (Forseti hringir.) en hins vegar var tekin ákvörðun um það á síðasta stjórnarfundi að lækka þessar þóknanir og lækka laun efstu manna.