136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[11:45]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þekki ekki þær jarðtengingar sem þýska þingið hefur við þjóð sína og hvaða kröfur þar eru gerðar en hér eru gerðar ríkar kröfur af hálfu almennings, sem betur fer fyrir alþingismenn. Sú siðferðilega krafa er gerð á hendur þinginu að það fari varlega með vald sitt. Hér hafa alþingismenn tekið sér vald til að skammta sjálfum sér kjör, lífeyriskjör. Menn gengu lengra. Menn gengu á sínum tíma fram í því að skammta sér nokkuð sem hét starfskostnaður en var í reynd launahækkun. Á sama tíma og vald til launaákvarðana hafði verið sett til annars aðila náðu þeir sér í starfskostnað sem fyrst um sinn var ekki einu sinni ekki skattlagður þótt enginn kostnaður lægi þar að baki. Þannig var það fyrst en var breytt eftir mikil mótmæli úti í þjóðfélaginu. Við erum enn sem betur fer í tengslum við þjóð okkar sem gerir kröfur til okkar og vill að við förum vel með vald okkar. Það höfum við ekki gert hvað þetta snertir og alls ekki hvað áhrærir lífeyrisréttindin, forréttindin sem þingið og sérstaklega ráðherrarnir (Gripið fram í.) — við skulum ekki gleyma því að lögin eins og þau eru núna eru fyrst og fremst ráðherralög. En engu að síður hafa þingmenn líka búið sjálfum sér kjör sem eru umtalsvert umfram það sem almennt gerist hjá launafólki á Íslandi, á almennum markaði og hjá almennum starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga. Þessu á að breyta.