136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[11:51]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm Ögmundi Jónassyni hvað það varðar að miklu máli skiptir að þingið sé í tengslum við þjóðina. Það má segja að á desemberdögum árið 2003 hafi þingið rofnað með ákveðnum hætti úr tengslum við þjóðina þegar rætt var um frumvarp, sem varð að lögum nr. 141/2003, um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara. Þá var gengið allt of langt í því að ákveða sérkjör, einkum fyrir forseta Íslands, ráðherra og hæstaréttardómara. Það var ekki tekið svo sérstaklega á varðandi (KHG: Þú meinar forsætisráðherra.) — forsætisráðherra. Já, það er hárrétt athugasemd, og þar var eiginlega farið út fyrir öll mörk sem þjóðin gat sætt sig við.

Einhvern veginn snerist allt í umræðunni meira og minna um sérkjör alþingismanna — sem var ekki alls kostar rétt en það er einhvern veginn þannig sem umræðan hefur verið og þegar þjóðin telur að ákveðin grið séu rofin gagnvart sér gerir hún kröfu um ákveðna leiðréttingu. Með lögum nr. 141/2003 var farið út yfir öll eðlileg mörk, einkum hvað varðaði kjör ráðherra og þá einkum forsætisráðherra. Það er staðreyndin í málinu og við höfum glímt við afleiðingarnar af því frá þeim tíma. Spurningin er með hvaða hætti hægt er að koma á réttlæti sem fólkið í landinu sættir sig við.

Það liggur fyrir og er augljóst að almenningur er óánægður með hvernig launakjörum er háttað samkvæmt lögunum sem um ræðir og því hefur verið lofað af hálfu ríkisstjórnarinnar að gera raunhæfar breytingar sem hefur verið talað um að væru réttlátar breytingar. Frumvarpið sem hér liggur fyrir er tvímælalaust mjög stórt skref í þá átt og ber að virða það sem þar er gert. Hitt er annað mál að skoðanir eru skiptar um hvort eigi að fara þessa leið eða hvort eigi að ganga lengra í átt til jöfnuðar og samræmingar hvað varðar lífeyriskjör og við sem stöndum að nefndaráliti minni hluta allsherjarnefndar, hv. þm. Atli Gíslason og Siv Friðleifsdóttir auk mín, gerum kröfu um að gengið sé lengra svo sem um ræðir í breytingartillögum sem fluttar eru af hv. þm. Ögmundi Jónassyni, Atla Gíslasyni, þeim sem hér stendur, Grétari Mar Jónssyni, Siv Friðleifsdóttur og Eygló Harðardóttur og hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði ítarlega grein fyrir í máli sínu hér áðan.

Ég hef alltaf haft ákveðnar efasemdir um lífeyriskerfið sem við búum við. Ég hef alltaf haft efasemdir um að rétt væri að hafa þvingaðan sparnað jafnháan og raun ber vitni, að 12% af brúttó- eða heildarlaunum fólksins í landinu séu tekin í þvingaðan sparnað. En þetta er þvingaður sparnaður sem ríkisvaldið stendur fyrir og gerir kröfu til, skuldbindur fólki til að greiða hvort sem því líkar betur eða verr og þá er spurningin: Með hvaða hætti er þá tryggt að fólkið fái peningana sína til baka? Staðreyndin er sú að það er ekki tryggt. Miðað við kerfið sem við höfum í dag er það ekki tryggt vegna þess að þessu er deilt niður til mismunandi sjóðstjórna sem hafa töluverðar heimildir til að ráðstafa fjármunum eftir geðþótta eða ákveðnum fjárfestingarstefnum. Niðurstaðan er sú að í því ástandi sem orðið hefur hafa lífeyrissjóðirnir tapað gríðarlegum fjármunum og þá stöndum við frammi fyrir því að við höfum kerfi þar sem hver einstaklingur er samkvæmt lögum þvingaður af ríkisvaldinu til að leggja verulegan hluta af mögulegum ævisparnaði með ákveðnum hætti til lífeyrissjóða en hefur ekki tryggingu fyrir því að fá þann sparnað endurgreiddan. (Gripið fram í.) Það finnst mér verulegur galli á kerfinu sem við búum við.

Ég var mjög hrifinn af hugmynd hv. þm. Péturs Blöndals, sem hann kom fyrir margt löngu með, um að til væri lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn. Ég hefði talið að fyrst ríkið er á annað borð að krukka í þessi mál ætti að fara þá leið að vera með einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn og um væri að ræða meiri jöfnuð en um ræðir núna í lífeyriskerfinu þannig að fyrst verið er að skuldbinda fólk í þennan þvingaða sparnað tryggi ríkisvaldið fólki endurgreiðslu með sama hætti. Það hefði ég haldið að væri eðlilegt að fylgdist að en þannig er það ekki.

Við flutningsmenn breytingartillögunnar, sem liggur fyrir á þskj. 529, viljum fara í þá átt að alþingismenn, ráðherrar, hæstaréttardómarar og þingmenn fylgi og séu jafnsettir þeim sem greiða iðgjöld í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Við viljum afnema þau sérkjör sem um er að ræða og enn er gert ráð fyrir í frumvarpi til laga sem liggur fyrir á þskj. 363 frá hæstv. ríkisstjórn. Við viljum ganga lengra þannig að það liggi fyrir að sérréttindi alþingismanna og annarra embættismanna sem ég vék að séu afnumin og um það snýst þetta mál í dag. Við erum með frumvarp ríkisstjórnarinnar sem gerir ráð fyrir því að ganga í átt frá þeim ójöfnuði sem var settur með lögunum frá 2003 en fara þó ekki alla leið. Við sem flytjum breytingartillöguna, sem hér liggur fyrir og fyrsti flutningsmaður er hv. þm. Ögmundur Jónasson, leggjum hins vegar til að það verði gengið alla leið. Um það verða þingmenn að greiða atkvæði og um það snýst málið í dag, hvort við viljum afnema sérstök sérréttindi alþingismanna, ráðherra o.s.frv. og hafa þau með sama hætti og hjá almennum starfsmönnum ríkisins eða hvort við viljum halda ákveðnum sérréttindum áfram svo sem frumvarp ríkisstjórnarinnar byggir á.

Við jafnaðarmenn — hvað lífeyrisrétt snertir — í þessum þremur flokkum sem stöndum að þeim breytingartillögum sem hér eru viljum í raun afnema sérréttindi þingmanna, ráðherra, forseta Íslands og hæstaréttardómara og láta það sama ganga yfir þá og opinbera starfsmenn í landinu. (Gripið fram í.)