136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[12:22]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var ávarpaður fullu nafni, eins og forseti kynnti mig núna, þegar ég var ungur drengur, þegar móður minni þótti hún þurfa að taka í drenginn, að hann hefði hegðað sér illa. Ég vona að ekki hafi vakað fyrir forseta að veita mér stranga áminningu.

Mig langar að árétta það, í ljósi þess sem kom fram í ræðu hv. þingmanns, að árið 2003, fyrir fimm árum, voru ekki gerðar neinar þær breytingar á lífeyrisréttindum alþingismanna og ráðherra sem hann lét í veðri vaka. 6% réttindaávinnsla ráðherra var komin inn þá löngu áður, að mig minnir árið 1967, og var engin breyting á. Réttindaávinnsla alþingismanna var með tilteknum hætti og henni var breytt á þann veg að þeir sem höfðu verið skemur en 17 ár bjuggu við skert réttindi og þeir sem höfðu verið meðaltíma, þingmenn í 10 ár, fengu 10% minni réttindi en þeir höfðu fyrir breytinguna. Það var nú allur eftirlaunaósóminn, virðulegi forseti.