136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[12:23]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að 6% reglan átti við ráðherra fyrir 2003 en hins vegar var, eins og hv. þingmaður getur réttilega um, staðan mismunandi varðandi þingmennina. Það fór, eftir því sem mér sýnist, eftir því hversu lengi menn höfðu setið á þingi. Sumir greiddu 2%, aðrir 5% og enn annar hópurinn 3,3% og síðan voru önnur þrep, (Gripið fram í: Það fór eftir starfstíma á þinginu.) það fór eftir starfstíma á þinginu. Nú erum við að fara niður í 2,375%, samræma þetta. Við erum líka að samræma þetta milli ráðherra og þingmanna. Ég tel það afskaplega mikilvægt, það var auðvitað ekki fyrir 2003. Að því leyti erum við líka að ganga lengra.

En það kom margt inn sem við afnemum núna í eftirlaunaósómanum, eins og hv. þingmaður kýs að kalla það, margt sem við bökkum núna með. Ég nefni á lokasekúndunum sérreglur sem áttu við forsætisráðherrann sérstaklega. Þær eru komnar út ef frumvarpið verður að lögum.