136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[14:10]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér er til umfjöllunar frumvarp sem hefur fengið mikla umfjöllun eða þetta málefni réttara sagt hvað varðar eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, hefur fengið mikla umfjöllun í þjóðfélaginu á síðustu árum og sú breyting sem gerð var árið 2003 ekki síst.

Nú hefur það gerst að stjórnarflokkarnir hafa orðið sammála um ákveðnar breytingar á lögunum frá 2003 og er í sjálfu sér hægt að lýsa ánægju með það. En það hefði kannski verið skemmtilegra ef það hefði verið mögulegt að allir flokkar sem eiga sæti á hv. Alþingi hefðu getað orðið sammála um þessar breytingar og það hefði verið hægt að haga málum þannig að flutningsmenn hefðu komið úr öllum flokkum. Í rauninni var það þannig, hæstv. forseti, að stjórnarandstaðan frétti af því í gegnum fjölmiðla að stjórnarflokkarnir hefðu náð þessu samkomulagi en stjórnarandstaðan fékk ekki tækifæri til þess að vera með í samkomulaginu. Hins vegar var stjórnarandstöðunni boðið að flytja málið eins og það kom frá stjórnarflokkunum, sem hún þáðu ekki.

Ég ætla fyrst og fremst að tala fyrir Framsóknarflokkinn en ekki stjórnarandstöðuna sem heild vegna þess að ég tel að mismunandi áherslur séu uppi í þeim flokkum að einhverju leyti. Áðan sagði hv. 4. þm. Reykv. s., Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, að margt sem sagt hefur verið um lögin frá 2003 hafi ekki verið á rökum reist og ég held að það séu orð að sönnu hjá hv. þingmanni. Það hefur verið margt sagt um þau lög sem var í raun ekki í samræmi við veruleikann. Þar eru forsvarsmenn og forustumenn Samfylkingarinnar (Gripið fram í.) í raun í nokkurri forustu þar sem formaðurinn hefur látið stór orð falla um þessi lög og hefur síðan augljóslega gefið eftir. En það er alltaf virðingarvert þegar fólk gefur eftir til þess að ná samkomulagi og nú liggur þetta samkomulag fyrir.

Ég vil halda því fram, hæstv. forseti, að þetta samkomulag og þetta frumvarp sem hér um ræðir sé verulega til bóta. Það fer ekkert á milli mála. En hvað var samþykkt þarna árið 2003 sem var svona óskaplega erfitt að sætta sig við? Það vil ég taka fram að flokksþing framsóknarmanna hefur líka ályktað gegn þeim lögum.

Í fyrsta lagi voru sett heildarlög um eftirlaunarétt en áður höfðu (Gripið fram í.) fyrirmæli um réttindin verið mjög dreifð. Í öðru lagi var greint á milli eftirlauna sem greiðast úr ríkissjóði og lífeyrisgreiðslna sem greiðast samkvæmt almennum reglum. Í þriðja lagi voru iðgjaldagreiðslurnar hækkaðar þannig að það sem einstaka þingmaður og ráðherra eru að greiða inn í sjóðinn var hækkað úr 4% í 5 og þetta er óbreytt samkvæmt því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Síðan voru í fjórða lagi settar sérreglur um eftirlaunarétt forsætisráðherra sem voru færðar mjög í samræmi við eftirlaunarétt forseta Íslands. Það ákvæði var mjög umdeilt og er mjög umdeilt og samkvæmt því frumvarpi sem hér liggur fyrir er það ákvæði tekið út. Í fimmta lagi er talað um aldursmarkið sem árið 2003 var fært niður þannig að fyrrverandi ráðherra sem hafði gegnt embætti í sex ár eða lengur gat hafið töku eftirlauna 55–60 ára eftir því hversu lengi hann hafði gegnt embætti ráðherra og ekki ósvipaðar reglur voru þá lögfestar í sambandi við alþingismenn. Síðan er það þessi réttindaávinnsla sem hefur verið gagnrýnd en henni var ekki breytt árið 2003 hvað varðar ráðherrana. Hún hafði verið 6% og var áfram 6%. Nú er hún færð niður í 2,375% og það sama gildir um þingmennina þannig að það er vissulega nokkuð róttæk breyting. Síðan voru réttindi maka alþingismanna skert árið 2003 og ég sé ekki að gerð sé breyting á því núna.

Annað atriði fyrir utan þau auknu réttindi sem forsætisráðherra fékk með breytingunni var að heimilt var að taka eftirlaun á sama tíma og fyrrverandi þingmenn eða ráðherrar gegndu starfi. Þetta var hins vegar ekki eins og hér hefur komið fram — ákveðinn misskilningur hefur verið uppi í samfélaginu um að þessi regla hafi verið tekin upp árið 2003. Hún er eldri og hún er í raun í samræmi við það sem gerist eða ekki óáþekkt því sem gerist hjá almennum ríkisstarfsmönnum. Þessi réttur er tekinn út núna og ég lýsi ánægju með það líka.

Við skulum hafa það í huga að þegar þetta samkomulag var upphaflega gert árið 2003 þá var það á milli allra formanna stjórnmálaflokkanna. Allir formennirnir gerðu þetta samkomulag og þeir voru hv. þingmenn Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson, Össur Skarphéðinsson, Steingrímur J. Sigfússon og Guðjón A. Kristjánsson. Þeir gerðu þetta samkomulag og þegar það var kynnt öðrum ráðherrum og öðrum þingmönnum lá fyrir að það var samkomulag um þessa breytingu þó að samkomulagið héldi ekki og þeir sem þarna áttu í hlut og ekki síst þeir sem þarna voru að fá aukin réttindi eða hærri laun, skulum við kalla það, treystu sér ekki til þess að fylgja málinu til loka. Það var verið að hækka þingfararkaupið verulega, þingfararkaup formanna stjórnarandstöðuflokkanna þar sem gert er ráð fyrir að formenn stjórnarflokkanna almennt gegni embætti ráðherra. Þessi breyting er áfram við lýði og það er ekkert hróflað við henni í því frumvarpi sem hér um ræðir enda snýst það einungis um eftirlaun. En þetta var nú hluti af samkomulaginu og ég held að það sé bara mikilvægt að það liggi hér fyrir.

Hæstv. forseti. Ég er þeirrar skoðunar að ef Samfylkingin hefði verið tilbúin að gangast undir það fyrir nokkrum árum síðan að lögin yrðu ekki afturvirk þá hefðum við getað gengið frá samkomulagi og breytingum á þessum lögum. Það var krafa Samfylkingarinnar að lögin yrðu afturvirk sem er ekki í samræmi við ákvæði stjórnarskrár. Nú virðist þetta hafa verið gefið eftir og Samfylkingin, hv. þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar hafi gengist undir það að lögin geti ekki verið afturvirk. Þar leystist sá hnútur með því að ná skilningi, sennilega fyrst og fremst hæstv. utanríkisráðherra, á þessu máli.

Það var meðal annars í tengslum við þetta ákvæði sem hv. þingmenn Samfylkingarinnar fóru að tala um smásálir, það væri rétt að hafa lögin afturvirk og svo gætu þeir sem hefðu áhuga á því að sækja sinn rétt bara gert það ef þeir væru slíkar smásálir. Það hefur lítið verið talað um smásálir hér í dag enda hefur Samfylkingin gefið eftir og gert sér grein fyrir því að afturvirk lög eru ekki sett á hv. Alþingi.

Eins og hér hefur komið fram finnst mér þær breytingar sem hér eru til umfjöllunar vera allar til bóta. Hins vegar er ég komin á þá skoðun núna eftir að þessi tími hefur liðið og öll þessi orð hafa verið látin falla og allur þessi misskilningur sem hefur verið uppi í sambandi við öll þessi mál hefur orðið skýrari að það væri best að alþingismenn og ráðherrar greiddu í hinn almenna sjóð ríkisstarfsmanna, A-deildina. Ég mun því styðja þá tillögu sem hér kemur fram og lýtur að því að það skref verði stigið og mér sýnist að miðað við nefndarálit sem kemur frá meiri hluta allsherjarnefndar og er undirritað af stjórnarsinnum að það sé mál sem verði til skoðunar áfram því að þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Innan nefndarinnar komu fram sjónarmið um ýmsar frekari breytingar eða aðrar útfærslur á fyrirkomulagi eftirlauna þeirra sem undir þessi lög heyra og telur meiri hluti allsherjarnefndar að slík skoðun þurfi að eiga sér stað.“

Þennan texta skil ég svo að það mál verði áfram til umfjöllunar.

Mér finnst ekki ólíklegt að ef sú tillaga sem hér verður borin fram um A-deildina, þ.e. að henni fallinni þá gæti ég stutt þetta frumvarp, því að eins og fram hefur komið er það verulega til bóta.