136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[14:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vel sjálf andsvör mín og andsvar mitt við ræðu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur laut að því að hún fór ekki með rétt mál hvað varðaði afturvirknina. Ég mun taka til máls á eftir og ræða ýmislegt annað sem varðar þetta eftirlaunamál en ég er í andsvari við þingmanninn vegna þess að hún fer ekki rétt með hvað varðar afturvirknina. Umræðan um afturvirknina stóð einmitt um hvort við værum tilbúin að láta ákvæði um að menn gætu ekki þegið laun og eftirlaun hjá ríkinu á sama tíma, ná til þeirra sem þannig háttar þegar um að eru með laun frá ríkinu og eftirlaun frá Alþingi. Það eru tekin af tvímæli í þessu frumvarpi að eftir 1. júlí nær það til þeirra aðila. Það var hin svokallaða afturvirkni sem var í umræðunni og þar eru tekin af öll tvímæli. Þess vegna eru það ósannindi þegar þingmaðurinn kemur upp og segir að nú sé Samfylkingin búin að kyngja þessum hugmyndum sínum um að lögin væru afturvirk hvað þetta varðar.