136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[14:32]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit að þetta er ákaflega viðkvæmt mál hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. En við skulum segja að þetta sé rétt, að það hafi orðið breyting á því frumvarpi frá því að samkomulagið var gert á milli formanna stjórnmálaflokkanna og þar til að það var flutt hér á Alþingi. En mér finnst mjög ólíklegt að þegar að forsætisnefndarfulltrúi Vinstri grænna flutti málið og skrifaði upp á það að ekki hafi legið algerlega fyrir hvernig þetta mál var vaxið.

Ég get ekki ímyndað mér annað en að frumvarpið hafi verið rætt í þingflokki Vinstri grænna. Varla hefur hv. þm. Þuríður Backman farið að flytja málið án þess að það hafi verið rætt í þingflokknum. Það hlýtur að hafa verið öllum ljóst hvernig málið var vaxið og hvernig frumvarpið leit út þegar það barst inn á hv. Alþingi. Ég fullyrði að forsætisnefndarfulltrúinn hefur verið búinn að skoða málið áður en það var flutt. Vissi þá formaður flokksins ekkert um hvernig málið var fyrst fulltrúinn í forsætisnefndinni vissi það?