136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[14:35]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er athyglisvert að hlusta á söguskýringarnar og ágætt að halda þeim að einhverju leyti til haga. Ég man eftir því þegar þetta mál kom fram var það einmitt kynnt þannig að formenn stjórnmálaflokka hefðu náð samkomulagi. Svo var málið flutt af fulltrúum allra stjórnmálaflokka í forsætisnefnd þannig að sú mynd sem gefin var af málinu í upphafi var að það væri samkomulagsmál. En síðan breyttist það og þegar á hólminn var komið var ekkert samkomulag um málið þannig að þetta var nú mjög sérstakur tími sem við upplifðum í kringum 2003.

Hvað hefur gerst síðan? Jú, það hefur verið tekist alveg gífurlega á um þetta mál. En hvað var í málinu 2003? Það er búið að fara aðeins yfir það hér og ég ætla að rifja það upp.

Það var ekki verið að breyta því að þeir sem voru farnir að taka eftirlaun gætu ekki líka unnið hjá hinu opinbera, það hafði verið áður við lýði. Það var ekki verið að breyta eftirlaunarétti ráðherranna, fyrir utan forsætisráðherra, nema að mjög takmörkuðu leyti.

Varðandi þingmennina fengu þeir aukin réttindi. Þeir fengu sömu réttindi en þeir áttu að borga meira fyrir þau. (Gripið fram í: Minni. Minni réttindi.) Minni réttindi, kallar hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. En alla vega græddu þingmenn ekki á frumvarpinu ef svo má að orði komast og ég held að mesti munurinn hafi verið í því að þeir greiddu hærri iðgjöld eftir 2003.

Þar fyrir utan var hækkað álagið á formenn stjórnmálaflokka í frumvarpinu um 50%, að ég held, og það voru nýmæli. Ég held að það hafi verið eðlilegt skref. Það er mikið álag sem fylgir því að vera formaður í stjórnmálaflokki, býst ég við. Sú mynd sem gefin var af þessum eftirlaunaósóma, eins og hann hefur verið kallaður, var líklega mjög skökk. Það gagnrýnisverðasta voru kjör forsætisráðherra sem voru aukin. Sú mynd sem fólkið í landinu fékk, að þingmenn væru að „gúffa“ í stórum stíl fjármagn fyrir eftirlaun sín síðar, var röng. Það var röng mynd sem gefin var.

Þetta hefur verið rætt talsvert í Framsóknarflokknum og við höfum ályktað um hvað gera beri í þessari stöðu. Við teljum að ekki eigi að hafa nein sérréttindi. Þess vegna höfum við lagt til að farin verði svokölluð A-deildar leið í LSR. (Gripið fram í.)

Samfylkingin flutti, eins og komið hefur fram, mál á síðasta þingi. Valgerður Bjarnadóttir var 1. flutningsmaður á því máli en þar voru líka hv. þm. Ellert B. Schram, Katrín Júlíusdóttir, Gunnar Svavarsson og Róbert Marshall. Það var mjög merkilegt af því í stjórnarsáttmálanum segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Eftirlaunakjör alþingismanna og ráðherra verði endurskoðuð og meira samræmi komið á í lífeyrismálum ráðamanna og almennings.“

Það átti að koma meira samræmi. Það átti að taka skref samkvæmt stjórnarsáttmálanum. En Samfylkingin klýfur sig frá stjórnarsáttmálanum og skilur samstarfsflokk sinn, Sjálfstæðisflokkinn, eftir á brókinni og fer fram með þetta mál ein. Þetta var því mjög ankannalegt og ber ekki vott um mikil heilindi. Þrátt fyrir að hér hafi verið um varaþingmanninn hv. Valgerði Bjarnadóttur að ræða sem hafði mikið rætt þessi mál tel ég þetta samt vera mikil óheilindi sem Samfylkingin sýndi sínum samstarfsflokki Sjálfstæðisflokknum á þessum tíma.

Fyrir utan þetta, í tengslum við þá orðræðu sem varð, gassaðist hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún, fram á sviðið og talaði um málið í fjölmiðlum. Sú orðræða varð einungis til þess að eyðileggja hugsanlega samstöðu sem hefði getað skapast um þetta mál. Alltaf hafði verið lögð svo mikil áhersla á samstöðu um málið og þess vegna var reynt að ná samkomulagi allra flokka á sínum tíma. Það tókst en menn duttu svo út þegar á hólminn var komið.

Hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, undirstrikaði að mikilvægt væri að ná sátt á milli stjórnmálaflokkanna í málinu. En allar aðgerðir og orðræða sem komu frá hæstv. ráðherra voru í þveröfuga átt og eyðilögðu fyrir því samkomulagi þannig að lokum fór mál hv. varaþingmanns Valgerðar Bjarnadóttur að sjálfsögðu ekki í gegn, það var bara svæft í allsherjarnefnd. Meiri hlutinn, þ.e. fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, reyndi auðvitað ekki að koma því í gegn þannig að það sofnaði svefninum langa og nú er komið fram frumvarp frá ríkisstjórninni.

Þetta frumvarp hefði þurft að fá miklu meiri tíma í nefndinni. Það var unnið allt of hratt. Þessi mál eru flókin og það eru margir vinklar sem þarf að skoða. Okkur tókst ekki að gera það í nefndinni á þessum tíma, því miður, þannig að ég tel að hér sé ekki um vönduð vinnubrögð að ræða. Ég vona að það verði þó engin slys vegna þessa frumvarps þegar það verður samþykkt. Ég býst við því að stjórnarflokkarnir hafi nú meiri hluta þegar á hólminn er komið í atkvæðagreiðslunni.

Við í minni hlutanum teljum mjög mikilvægt að fara með kjör okkar, þingmanna og ráðherra, inn í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Ef það er gert er alveg á hreinu hvert menn stefna. Þá förum við nákvæmlega þá leið sem þar er farin. Við borgum þá það sama inn í sjóðinn sem eru 4% og fáum sömu réttindaávinnslu sem þar er í gildi sem er 1,9%.

Það er hins vegar alveg rétt sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og fleiri hafa sagt í ræðum sínum, að hlutfallslega er þetta sömu tölur og eru í frumvarpi ríkisstjórnarinnar, þ.e. þar er iðgjaldagreiðslan 5% og réttindaávinnslan 2,375%. Það er alveg í samræmi við það sem felst í A-deildinni. En við teljum að það eigi að ganga skrefið til fulls, vera ekki með sérreglur heldur þá reglu sem gildir í þeim sjóði. Öll kjör sem þar gilda, gildi líka öll um alþingismenn og ráðherra.

En hvað mun þá eiga sér stað, virðulegur forseti, að þessu frumvarpi samþykktu? Það hlýtur að hafa áhrif á ákvörðun kjararáðs þegar kemur að henni. Að vísu mun kjararáð væntanlega ekki taka á málum þingmanna og ráðherra um nokkurt skeið, í eitt ár eða svo, minnir mig að sé í þeim lögum sem við erum að breyta um kjararáð. En í 4. mgr. 9. gr. þeirra laga segir að þegar kjararáð tekur mál til meðferðar skal það taka tillit til kvaða sem störfunum fylgja svo sem hlunninda og réttinda sem tengjast embætti og launum svo sem lífeyrisréttinda og ráðninga og kjara. Það eru því leiðbeiningar í lögunum um hvað Kjararáð á að skoða þegar lögin eru ákvörðuð.

Það hefur verið upplýst í umræðunni og kom fram í allsherjarnefnd að við skerðum réttindi ráðherra um 60% miðað við tillögur ríkisstjórnarinnar og þingmanna um 20% samkvæmt tillögu ríkisstjórnarinnar. Verði tillaga minni hlutans samþykkt er verið að skerða þessi kjör enn þá meira. Hvor leiðin sem farin verður, leið minni hlutans eða leið stjórnarflokkanna, er alveg ljóst að kjararáð hlýtur að hækka laun þingmanna og ráðherra. Annað væri mjög sérstakt og alls ekki í takt við lögin að mínu mati en hækkunin yrði talsvert meiri ef leið minni hlutans yrði farin.

Ég tel bara að það sé eðlilegt. Það er eðlilegt að kalla hlutina því nafni sem þeir heita og það á ekki að vera að fela kjörin í einhverjum lífeyrisréttindum. Það er eðlilegra að kaupið sé hærra en lífeyrisréttindin að sama skapi lægri. Við teljum að það eigi að fara þessa svokölluðu A-leið, fara inn í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Ég vil taka það sérstaklega fram að í dag erum við með svokallaðar sérreglur en samt er verið að sýsla með það kerfi sem alþingismenn og ráðherrar taka eftirlaun eftir hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Með því að hafa sérreglur eykst kostnaðinn talsvert við utanumhald um kerfið hjá lífeyrissjóðunum. Þetta er flókið, kostnaðarsamt og óhagkvæmt. Svo að ég vitni nú í það sem kom fram á fundi allsherjarnefndar hjá þeim sem með þessi kerfi sýsla þá hækkar þetta flækjustigið. Það væri því mjög mikið hagræði í því að færa þetta inn undir eitt kerfi hjá A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Öll rök mæla með því að fara þessa leið. Ég hef ekki alveg áttað mig af hverju meiri hlutinn vill það ekki, að fara algerlega inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og vera í því gagnsæja kerfi sem þar er (Gripið fram í.) og fá kjör eins og sá hópur býr við. Það yrði mikil einföldun varðandi (Gripið fram í.) meðferð þessara mála hjá okkur, virðulegur forseti.

Ég hef líka heyrt hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson lýsa því yfir í frekar skýru máli að það ætti að skoða að fara A-leiðina. Það eru gefin svolítil fyrirheit um það í nefndaráliti meiri hlutans. Þar segir að komið hafi fram sjónarmið um frekari breytingar og aðrar útfærslur á fyrirkomulagi eftirlauna og slík skoðun þurfi að eiga sér stað.

Það er bara ansi mikið sagt í þessu nefndaráliti, að slík skoðun þurfi að eiga sér stað. Það segir meiri hlutinn. Ég skora á þingmenn stjórnarflokkanna sem eru í allsherjarnefnd að beita sér fyrir því að þessi endurskoðun fari fram sem fyrst. Ég tek líka eftir því að einn hv. þingmaður í meiri hlutanum, Ellert B. Schram, gerir fyrirvara við þetta nefndarálit og mál.

Virðulegur forseti. Þetta er jákvætt skref sem stjórnarflokkarnir taka hér en það væri miklu eðlilegra að ganga alla leið og færa þingmenn og ráðherra inn í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Þá þyrfti ekkert að vera að reyna að útskýra hvað í kjörum okkar felst. Þá gætu flestir, jafnvel allir, skilið það algerlega. Þær reglur sem eru í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins eru svo mörgum kunnar og hafa verið í gildi um nokkurt skeið.