136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[15:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg rétt sem kom fram í máli hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar að hann hefur margsinnis sagt það á fundum með formönnum flokkanna að hann fyrir sitt leyti og Frjálslyndi flokkurinn hefðu ekkert á móti því að þetta mál eða önnur mál sem varða eftirlaunaréttindi ráðherra og þingmanna og hæstaréttardómara komi inn í þingið til efnislegrar umræðu. Það er alveg rétt, þingmaðurinn hefur sagt þetta og talað fyrir hönd sjálfs síns og Frjálslynda flokksins. Það var bara ekki umræðuefni mitt áðan. Umræðuefni mitt var að engir flokkar aðrir en Samfylkingin hafa haldið þessu máli á lofti í þinginu með því að leggja fram frumvörp og sýna hvert þeir vildu stefna í málinu. Það eru staðreyndir og það eru fimm ár síðan lögin voru sett. Við erum að ná verulegum árangri núna í því að skerða þessi forréttindi og breyta þeim og ég tel að það sé vegna þess að það er búið að klappa steininn svo lengi í þá veru að við erum að ná núna ákveðinni niðurstöðu sem er mjög mikilvæg.