136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

262. mál
[16:10]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað er þetta útúrsnúningur hjá hv. þm. Sigurði Kára vegna þess. (Forseti hringir.)

(Forseti (KHG): Forseti beinir því til þingmanna að nefna aðra þingmenn fullu nafni.)

Hæstv. forseti. Sigurður Kári Kristjánsson heitir hv. þingmaður og ég biðst afsökunar á að orða þetta ekki rétt.

Ég vil segja að þetta er útúrsnúningur, auðvitað er þetta nefskattur þó að einhverjar undanþágur séu í einstaka tilfellum bæði hvað varðar aldur, upp að 16 ára aldri, og fyrir öryrkja og aldraða. Verið er að skattleggja alla sem hafa yfir 1,1 milljón á ári í tekjur.

Mér finnst að við eigum að hafa þetta beint á fjárlögum, en ekki skattleggja með þessum hætti. Enn og aftur tek ég fram að við eigum ekki heldur að vera með Ríkisútvarpið, hvort sem það er sjónvarpið eða útvarpsrásirnar, Rás 1 og Rás 2, á auglýsingamarkaði. Við eigum að þora að viðurkenna að við ætlum að vera með ríkisútvarp og við eigum ekki að skattleggja einstaklinga sérstaklega heldur hafa það á fjárlögum og ég endurtek það, á fjárlögum á þetta að vera en ekki með öðrum hætti.