136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

262. mál
[16:28]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp sem má í raun segja að sé sáttaleið sem menntamálanefnd ákvað að fara. Snemma var ljóst að mikil ósátt var um frumvarp menntamálaráðherra um að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði. Það var ósætti eða athugasemd við nánast hverja einustu málsgrein og við framsóknarmenn féllumst á að fara þessa leið, ákveða þennan svokallaða nefskatt — sem ég vil kalla þó að hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni finnist það ekki réttnefni — og taka svo hitt frumvarpið upp eftir áramót og vinna það betur.

Ríkisútvarpið var gert að opinberu hlutafélagi í tíð síðustu ríkisstjórnar. Í 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laganna kom fram að þar var gert ráð fyrir að í stað afnotagjalds yrði tekið upp sérstakt útvarpsgjald sem lagt yrði á einstaklinga og lögaðila 1. janúar 2009. Segja má að verið sé að fylgja eftir því sem ákveðið var með þeirri lagasetningu.

Í athugasemdum við 1. mgr. 11. gr. frumvarpsins kemur fram að við útreikning á gjaldinu hafi verið gert ráð fyrir óbreyttum tekjum Ríkisútvarpsins ohf. og hliðsjón höfð af tekjustreymi félagsins á árunum 2005 og 2006 og lagt til grundvallar að allir gjaldendur sem féllu undir lögin stæðu skil á gjaldinu. Í frumvarpinu var tekið fram að eðlilegt væri að fjárhæð gjaldsins yrði endurskoðuð þegar nær drægi breytingu á tekjustofnum Ríkisútvarpsins ohf. úr afnotagjaldi í sérstakt útvarpsgjald samkvæmt lagagreininni. Þá var því sjónarmiði lýst að haga bæri álagningu gjaldsins þannig að hvert heimili með tvo einstaklinga sem greiddu gjaldið yrði nokkurn veginn jafnsett eftir upptöku þess.

Það er rétt sem kom hér fram hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að umdeilt er hvort gjaldið eigi að vera 17.200 kr. eða 18.000 kr., en fyrirvari er í frumvarpinu um að farið verði yfir þessa hluti strax á næsta ári.

Einnig þarf að taka upp og endurskoða hvernig gengið hefur með formbreytinguna sem farið var í með lögum nr. 6/2007. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði að auka hefði átt sveigjanleika og sjálfræði, ég held að það sé rétt. Kannski ekki með því sem við höfum nú séð að Ríkisútvarpið sækir sér tekjur á auglýsingamarkaðinn heldur var algjört skilyrði að framlög fylgdu þessu opinbera hlutafélagi og styrkja átti Ríkisútvarpið. Það hefur algjörlega verið svikið. Skýrt hefur komið fram hjá ýmsum umsagnaraðilum að ekki hafi verið staðið við þann þjónustusamning sem ríkið gerði við RÚV.

Þar erum við kannski komin að rót vandans vegna þess að stjórnendur RÚV notfæra sér þau tæki sem þeir hafa, tæki markaðarins, til að sækja sér fjármuni. Þeir sóttu mjög skelegga auglýsingasafnara, ef ég má nota það orð, sem náðu í auglýsingar af miklu meiri móð en áður hafði verið gert og kannski má segja að samstaðan um Ríkisútvarpið hafi þá einfaldlega rofnað.

Eins og við heyrðum hjá umsagnaraðilum vilja langflestir hafa einhvers konar ríkisútvarp, þá er vísað í menningarhlutverkið og öryggishlutverkið, en kannski er kominn tími til að breyta rekstrargrundvellinum og taka það upp núna strax eftir áramót.

Svo er óleystur sá vandi sem nú blasir við og það er niðurskurðurinn. Við sáum fram á uppsagnir í byrjun ágúst og svo aftur í lok nóvember og byrjun desember. Það er vandamál sem ríkisstjórnin verður að leysa með einum eða öðrum hætti vegna þess að ekkert er mikilvægara en að við höfum öfluga fjölmiðla í því ástandi sem ríkir hér á landi. (Forseti hringir.)

(Forseti (KHG): Forseti vill biðja hv. þingmenn að gefa ræðumanni hljóð.)

Ég þakka hæstv. forseta — sem fipaði mig nú hálfpartinn í ræðunni en það er annað mál.

Eins og ég var að segja verðum við að endurskoða hlutverk RÚV. Tillögurnar sem voru núna í frumvarpinu náðu bara til sjónvarpsins en ekki útvarpsins og var það harðlega gagnrýnt og ósanngjarnt að einungis hafi átt að taka RÚV af sjónvarpsauglýsingamarkaðnum en ekki útvarpsins. Ég er mjög fylgjandi því að Ríkisútvarpinu verði bannað að beita sér á auglýsingamarkaði og vil árétta það sem kemur fram í áliti menntamálanefndar.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Við umfjöllun um málið kom til tals sá möguleiki að lögfesta ákvæði sem kveði á um bann við því að Ríkisútvarpið afli sér auglýsingatekna að eigin frumkvæði. Nefndin telur hins vegar ekki ástæðu til að gera tillögur um slíkt bann að sinni en beinir þeim tilmælum til Ríkisútvarpsins að ganga hóflega fram þar til málið hefur verið afgreitt á Alþingi.“

Ég held að ef þetta næðist fram yrði kannski aftur grundvöllur um samstöðu um Ríkisútvarpið fyrir alla landsmenn.

Að lokum vil ég ítreka það sem hefur komið hér fram að þótt bótareglur sem varða takmörkun Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði séu ekki afgreiddar að svo stöddu verða þær áfram til meðferðar hjá nefndinni sem telur eðlilegt að starfshópurinn fari aftur í málið, en ekki er samstaða um hvernig þessu verður hagað í framtíðinni. Við framsóknarmenn munum standa að frumvarpinu og samþykkjum það kannski líka til að liðka til fyrir störfum þingsins en áskiljum okkur allan rétt til að koma með tillögur að breytingum strax eftir áramót.