136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[09:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við ræðum um lífeyriskjör þingmanna, ráðherra o.fl. Undanfarið hefur verið mikið um mótmæli, mikil gerjun í þjóðfélaginu, krafa um gagnsæi.

Þau réttindi sem við ræðum hér eru ekki gagnsæ. Lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna eru heldur ekki gagnsæ vegna þess að réttindin þar eru tryggð en iðgjald ríkisins er breytilegt en hjá almennu sjóðunum er iðgjaldið fast en réttindin breytileg. Áfall sem lífeyrissjóðirnir hafa orðið fyrir undanfarið mun verða til þess að hinir almennu sjóðir verða skertir, lífeyrir þeirra verður skertur, á sama tíma og opinberir starfsmenn og sérstaklega þingmenn og ráðherrar búa við þau forréttindi að réttindin eru föst.

Ég vara eindregið við þessu og hef flutt um þetta breytingartillögur.