136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[10:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir þessa spurningu. Vissulega fór ég hér ekki ítarlega yfir 6. greinar heimildirnar sem slíkar en vil ítreka það, virðulegur forseti, að allar meginbreytingar og orðalagsbreytingar sem koma fram á 6. greinar heimildum utan tveggja komu frá ríkisstjórninni og fulltrúar ríkisstjórnarinnar lögðu þær fram og skýrðu þær út á fundi fjárlaganefndar. Það var ekki sérstaklega í nefndinni vikið að þessari skýringu og orðalagi hennar. En ég geri ráð fyrir því, virðulegur forseti, að heilsugæslan eigi að vera starfrækt áfram, ef það hefur verið spurningin. Ég verð þá einfaldlega að vísa til þess enn frekar að heilbrigðisráðherra eða formaður heilbrigðisnefndar geti upplýst um það. Ég lít svo á að hér sé fyrst og fremst um fjárhagsfærslu eða útfærslu á þeim að ræða í þessari 6. greinar heimild.

Að öðru leyti get ég ekki tjáð mig um stefnumörkun varðandi Heilsugæsluna í Árbæ.