136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[10:45]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er fróðlegt að heyra að þessi tillaga ásamt mörgum öðrum sé komin frá ríkisstjórninni án þess að hafa fengið kannski viðunandi umræðu á vettvangi fjárlaganefndar og bersýnilega ekki á vettvangi þeirrar fagnefndar sem fjallar þá um þetta mál eða ég geng út frá því miðað við svar hv. formanns fjárlaganefndar.

Ég velti því fyrir mér hvort hér sé ætlunin að breyta um rekstrarform í Heilsugæslunni í Árbæ og vil inna hv. formann fjárlaganefndar eftir því hvort það kunni að vera skýringin á bak við þessa litlu breytingu að sleppa þarna einni aukasetningu, að ætlunin sé að bjóða út rekstur Heilsugæslunnar í Árbæ, að einkavæða hana eða koma henni í einkarekstur og það sé skýringin á því að ekki er gert ráð fyrir því að andvirði þessa eignarhluta sé ráðstafað til kaupa eða leigu á nýju húsnæði fyrir Heilsugæsluna í Árbæ. Ég tel að mikilvægt að fá fram hvort þetta sé pólitísk stefnumörkun um að það eigi að einkavæða eða setja í einkarekstur þessa heilsugæslustöð. Ég tel að það sé stórpólitísk ákvörðun þegar svoleiðis er gert og það þurfi því að fylgja svona breytingartillögum skýringar, greinargerð eða skýringar þannig að hv. þingmenn geti áttað sig á því hvað þarna er á ferðinni. Þótt þetta láti lítið yfir sér sem brottfall á einni aukasetningu geta falist í því býsna stór pólitísk tíðindi og það er það sem ég er að sjálfsögðu að inna hv. þingmann eftir.