136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[10:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég var nú svo heppinn að hv. formaður heilbrigðisnefndar Ásta Möller var stödd í salnum og gat upplýst mig um að Heilsugæsla Árbæjar er að flytja í nýtt húsnæði nú í desember. Þar af leiðandi vil ég ítreka að eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson veit varðandi annars vegar það hvort menn kaupi eða leigi fasteignir þá er það allt annað mál varðandi síðan rekstrarfyrirkomulag heilsugæslunnar. Við í hv. fjárlaganefnd höfum ekkert fjallað um rekstrarfyrirkomulagið og ég held að það sé alla vega óbreytt. Ég veit ekki betur. Þessi umræða snýr einungis að húsnæðinu. Heilsugæslan í Árbæ er sem sagt að flytja í nýtt húsnæði nú í desember. Ég fékk hér upplýsingar um það frá hv. þm. Ástu Möller. Ég verð að vísa til þeirra upplýsinga og þess vegna er kannski verið að breyta þar af leiðandi 6. greinar heimildinni varðandi fasteignamálin.

Í frumvarpinu í byrjun október segir, eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kom að, að heimilt væri að selja eignarhlutinn í Hraunbæ 102 og verja andvirðinu til kaupa eða leigu á hentugu húsnæði fyrir Heilsugæslu Árbæjar. Ég hlýt að skilja það sem svo að nú sé búið að leigja húsnæði undir heilsugæsluna þannig að hún er að flytja í annað húsnæði sem verið er að taka í notkun og er það vel.