136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:12]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður vék að vanda heilbrigðisstofnana í ræðu sinni og m.a. vegna þeirra fyrirhuguðu skipulagsbreytinga sem verða á landsbyggðinni ekki síst og reyndar á höfuðborgarsvæðinu líka, í kjölfar þeirrar stöðu sem við stöndum frammi fyrir núna. Í rauninni má segja að þær skipulagsbreytingar hafi þegar verið orðnar ljósar síðastliðið vor eða öllu heldur vorið 2007 þegar gerðar voru breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu. Þar var gert ráð fyrir annarri og breyttri verkaskiptingu milli stofnana og jafnframt sameiningu sjúkrastofnana á landsbyggðinni og miklu betri skilgreiningu á því hvers konar þjónusta á að vera á hinum einstöku stofnunum úti á landi og á höfuðborgarsvæðinu.

Það var alveg ljóst að þær breytingar sem mælt var fyrir á lögum um heilbrigðisþjónustu mundu leiða til þessara breytinga og ættu þær því ekki að koma neinum á óvart. Hins vegar var ljóst að þessar breytingar höfðu ekki gengið eftir eins og búist var við en í sjálfu sér eru þetta líka breytingar sem krefjast ákveðins undirbúningstíma og samráðs við viðkomandi aðila, m.a. sveitarstjórnir á viðkomandi svæðum. Við það er miðað að þessar skipulagsbreytingar leiði til aukinnar hagkvæmni í heilbrigðisþjónustunni, aukins samstarfs heilbrigðisstofnana á svæðinu og aukinnar samhæfingar á þjónustu við fólk og þannig séð bættrar þjónustu. Oft hefur verið sagt að á þessum stöðum hafi ríkt falskt öryggi, þ.e. að fólk hafi búist við að þar væri ákveðin þjónusta sem þegar á reyndi væri ekki til staðar heldur frekar í orði en á borði. Með þessari breyttu skilgreiningu á hlutverkum heilbrigðisstofnana (Forseti hringir.) náum við betri árangri bæði peningalega og hvað þjónustu varðar.