136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:15]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Magnús Stefánsson) (F) (andsvar):

Hæsv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir að koma upp og vekja athygli á þessu. Ég var í rauninni ekki að fjalla um skipulag heilbrigðisþjónustunnar eða fór ekkert inn í það. Ég vakti hins vegar athygli á því að í frumvarpi til fjárlaga 2009 er fjallað í greinargerð um áform um breytingar á skipulagi heilbrigðisþjónustunnar. Síðan komu fram breytingartillögur við frumvarpið sem fjallað var um við 2. umr. og þær voru samþykktar. Í framhaldi af því, eftir að búið var að samþykkja þessar tillögur, komu fram upplýsingar í fjárlaganefnd um hvaða áform væru uppi núna um þessi mál og þau eru ekki hin sömu og voru í frumvarpinu að okkar mati. Það var fyrst og fremst þetta sem ég var að vekja athygli á. Ég geri ráð fyrir að við munum síðar taka efnisumræðu um þau atriði og ég ætla ekki að tjá mig um það hér og nú með hvaða hætti það ætti að vera. Ég var fyrst og fremst að vekja athygli á því að stjórnarmeirihlutinn hefur samþykkt tilteknar tillögur að mínu mati áður en menn höfðu raunverulega upplýsingar um hvað í þeim fólst.