136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:23]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Magnús Stefánsson hefur gert ítarlega grein fyrir framhaldsnefndaráliti okkar í minni hluta fjárlaganefndar við 3. umr. fjárlaga ársins 2009. Ég vísa til þeirra orða hans og nefndarálitsins eins og það liggur fyrir. Þar er rakið mjög ítarlega hversu vanbúið fjárlagafrumvarpið er til afgreiðslu. Þar er rakið mjög ítarlega að allt er í óvissu um hverjar eru í raun fjárskuldbindingar ríkisins á næsta ári. Allt er í óvissu um hver vaxtagjöld verða á næsta ári og næstu árum, allt er í óvissu um skuldbindingar á svokölluðum Icesave-reikningum, hvar þær lenda og hversu háar upphæðir lenda á íslenska þjóðarbúinu og ríkissjóði. Þannig eru fjöldamörg atriði fullkomlega í uppnámi og óljós svo að ekki munar nokkur hundruðum milljóna eða nokkrum milljörðum heldur hundruð milljörðum króna.

Hér eru lögð fram fjárlög sem eru stærstu niðurskurðarfjárlög í sögu íslenska lýðveldisins en samt hefur óvissan aldrei verið meiri um hversu raunhæf þau eru og sjálfur forsætisráðherrann hefur lýst því yfir að beita þurfi enn meiri niðurskurði á næsta og þarnæsta ári. Engin tilraun er gerð til að meta horfur til næstu ára. Ekki er gerð tilraun til að meta greiðslugetu ríkissjóðs. Ræður ríkissjóður við að taka á sig á annað þúsund milljarða kr. skuldbindingar til næstu ára? Ég dreg það í efa.

Því hefði verið mjög mikilvægt á þessum örlagatímum að í fjárlögum fyrir næsta ár hefðu þessi atriði verið unnin mun nánar. Ítrekað er vísað til þess að þetta séu fjárlög Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi með aðkomu sinni sett fram kröfur um bæði tekjur og gjöld ríkissjóðs og hvernig þau gjöld eru lögð á, hvernig tekjuöflunin er lögð á einstaklinga og fyrirtæki og atvinnulífið í landinu og hvernig gjöldum er dreift.

Við höfum séð forgangsröðunina sem lýsir sér best í því að selja á inn á sjúkrahúsin. Við höfum séð forgangsröðunina um að skera lögbundinn samning við bændur niður. Við höfum séð hvernig á að skera niður framlög til menntamála. Samt er í hinu orðinu sagt að í þrengingunum sem fram undan eru sé mjög mikilvægt að fólk nýti tækifærið og leiti sér meiri menntunar, að fólk sem er að missa atvinnuna fari í skóla.

Þegar ungir og eldri ætla að sækja um skólavist geta skólarnir ekki tekið við vegna þess að fjárveiting til þeirra hefur verið skorin niður. Hvað sagði ekki rektor Háskóla Íslands í gær? Hún sagði að það væri fjarri því að háskólinn gæti tekið við þeim nemendum sem hefðu sótt um skólavist vegna þess að fjárveitingar vantaði og nemendur sem höfðu sótt um skólavist og höfðu jafnvel þegar borgað gíróseðilinn fyrir innritunargjöldin — ekki eru þau nú svo lág, milli 40 og 50 þús. kr. sem hver nemandi verður að greiða um leið og hann staðfestir innritun sína — fengu tilkynningu um að hluti þeirra yrði bakfærður. Þeir höfðu greitt innritunargjaldið, staðfestingargjaldið, en háskólinn taldi sig ekki geta orðið við því að taka viðkomandi nemendur inn og þessar greiðslur voru bakfærðar. Þetta er því miður staðreyndin sem blasir við.

Við í minni hluta fjárlaganefndar höfum einnig lagt fram bréf og óskað eftir nákvæmum upplýsingum um stöðu mála. Þær hafa ekki fengist í gegnum hefðbundnar leiðir frá ráðuneytunum og við höfum því lagt fram bréf bæði til Seðlabankans, sem við báðum um að svara þar til greindum atriðum sem lúta að samanburði á fjárlagafrumvarpinu og skilmálum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og ríkisendurskoðanda, sem við báðum um að skoða hvernig það sem lagt er fram í fjárlagagerðinni og hvernig skuldbindingar ríkissjóðs eru tilgreindar í fjárlagafrumvarpinu samræmist ákvæðum fjárreiðulaga og öðru því sem ríkisendurskoðandi vildi byggja á. Við höfum ekki fengið svar.

Þess vegna er það, herra forseti, að við í minni hlutanum höfum gagnrýnt mjög að fjárlög verði afgreidd við þessar aðstæður. Ég tel að fresta eigi afgreiðslu fjárlaga meðan verið er að vinna þau og frumvarpið betur og hef af því tilefni lagt fram frumvarp til laga sem gæti tekið á þeirri stöðu ef frumvarpi til fjárlaga yrði frestað. Þá yrðu bráðabirgðaheimildir og heimildir til nauðsynlegrar lántöku í byrjun árs afgreiddar úr ríkissjóði og síðan væri hægt að vinna fjárlögin betur.

Þetta á sér fordæmi. Árið 1980 voru fjárlögin ekki tilbúin í tæka tíð og þá var gripið til þess ráðs að vinna fjárheimild til bráðabirgða — greiðsluheimildir fyrir ríkissjóð — meðan verið var að vinna fjárlög og það var fram í marsmánuð.

Ég vil víkja að öðru atriði á þessum stutta tíma, herra forseti, og það eru heilbrigðismálin. Í breytingartillögum ríkisstjórnarinnar við fjárlög kemur fram að stokka á gjörsamlega upp heilbrigðisstofnanir og sjúkrahús úti á landsbyggðinni. Menn vísa til þess að það standi í lögum. Það stendur nú svo margt í lögum, en tillögur hafa komið fram og heyrst nú á allra síðustu dögum um að sameina eigi heilbrigðisstofnanir frá Langanesi í Húnavatnssýslu undir sjúkrahúsið á Akureyri. Á hinn bóginn hafa heyrst þær hugmyndir að sameina eigi heilbrigðisstofnanir á Vesturlandi allt frá Hvammstanga að Hólmavík og vestur um að Akranesi í sjúkrahúsið á Akranesi. Síðast í gær greindi framkvæmdastjóri sjúkrahússins á Patreksfirði frá því að fram hefðu komið hugmyndir um að sameina heilbrigðisstofnunina á Patreksfirði undir Ísafjörð, en ekki eru samgöngur þar á milli nema nokkurn hluta af ári.

Ekki aðeins þarf að vinna þessar sameiningarhugmyndir miklu betur heldur eru það vinnubrögðin við aðgerðirnar allar — og ég vil inna hæstv. heilbrigðisráðherra eftir hvort þessi vinnubrögð séu að hans tillögu um að skyndilega sé farið í að undirbúa svona gríðarlegar sameiningar án nokkurs samráðs við sveitarfélög og sveitarstjórnir, án nokkurs samráðs við starfsfólk sjúkrahúsanna, án nokkurs samráðs við íbúana og hvort raunveruleg greinargerð og áætlun fyrir það hverju á að ná fram hafi verið unnin. Menn hljóta að setja markmið um hverju á að ná fram með slíkum gríðarlegum sameiningum, bæði hvað varðar þjónustu og sparnað, áður en farið er af stað í svo umfangsmiklar aðgerðir.

Ég vil minna á, herra forseti, að þingmenn Norðvesturkjördæmis fengu bréf frá fulltrúum allra flokka í sveitarstjórn Skagafjarðar sem höfðu frétt á skotspónum að til stæði að leggja Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki undir sjúkrahúsið á Akureyri. Þeir komu á fund okkar þingmanna og lögðu fram bréf þar sem þeir tjá vandlætingu sína á þessum vinnubrögðum og krefjast aðkomu að málinu, segjast vera með aðrar hugmyndir sem gætu þess vegna líka þjónað bæði þjónustustigs- og hagkvæmnismarkmiðum ráðherrans. Allir gera sér grein fyrir því að það þurfi að spara en heilbrigðisþjónustan er fyrir fólkið, heimafólk á svæðunum, ekki fyrir ráðuneytið, ekki fyrir ráðherrann.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi ekki stöðvað þetta ferli sem fréttist af núna á síðustu dögum að hefði verið sett í gang um þessar gríðarlegu og hroðvirknislegu sameiningu sem þarna var sett upp og málin séu tekin til gaumgæfilegrar skoðunar og athugunar og umræðu og heimafólk fái tækifæri til að móta tillögur sínar. Hver heilvita maður sér hversu fáránlegt er að leggja heilbrigðisstofnunina á Patreksfirði undir Ísafjörð, bæði eru nokkur hundruð kílómetrar þar á milli, kannski um 170 kílómetrar, og vegurinn lokaður mánuðum saman á vetrum. Ég vil beina þessu til hæstv. heilbrigðisráðherra.

Hitt sem ég hef áhyggjur af til viðbótar og svo öllu því raunverulega sem stendur í þessu frumvarpi, er hvernig vegið er að landbúnaðarskólunum. Bæði Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli höfðu gert ítarlega grein fyrir fjárþörf sinni fyrir næsta ár. Nýleg lagasetning heimilaði þeim að verða háskólar með aukin verkefni, nýbúið er að færa þá á milli ráðuneyta frá landbúnaðarráðuneyti til menntamálaráðuneytis. Skólarnir hafa vel að merkja verið undir atvinnuvegaráðuneyti frá stofnun sinni, eða í meira en 100 ár, og nú virðist eiga að kippa fjárhagslegum grundvelli undan þeim eða lama hann verulega.

Við, þingmenn Vinstri grænna, vöruðum við þessu þegar ríkisstjórnin flutti stofnanirnar frá landbúnaðarráðuneytinu til menntamálaráðuneytisins. Við töldum að undir niðri væri áætlun um að skerða stöðu þeirra verulega, við vöruðum við þessu. Nú virðist ótti okkar vera að koma í ljós, herra forseti, og ég vil spyrja hæstv. menntamálaráðherra, sem ég vona að komi aftur inn í umræðuna seinna, hvernig hann ætlar að skýra og rökstyðja þann niðurskurð og úlfakreppu sem hann setur landbúnaðarskólana í. Þeir eru ekki aðeins meðal sterkustu menntastofnana landsins heldur lykilstofnanir í héruðum sínum og lykilstofnanir landsins á ákveðnum mikilvægum verkefnasviðum sem við horfum nú til að geti verið hvað sterkastar og virkastar í að takast á við þann mikla efnahagsvanda sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) hefur komið þjóðinni í og byggja landið áfram upp. Ég skora á hæstv. (Forseti hringir.) menntamálaráðherra að gera grein fyrir stefnu sinni varðandi landbúnaðarskólana.