136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem hv. þingmaður segir er einfaldlega að við eigum ekki að taka á þeirri stöðu sem uppi er núna. Það er það sem hv. þingmaður er að segja. Við skulum hafa það algerlega á hreinu að ef við förum ekki að vinna í því sem snýr að rekstrinum, og það á við um allt land — og svo að því sé haldið til haga hefur verið unnið mikið starf og verið kallaðir til m.a. þeir aðilar sem hafa verið að vinna hjá þessum stofnunum og margir aðrir til að skoða þessa þætti.

Hv. þingmaður upplýsir hér að það eigi ekki að gera þetta. Það á ekki að snerta þetta. Hvað er hv. þingmaður að segja? Hann er með tillögur um gríðarlega hækkun á sjúklinga eða gríðarlega þjónustuskerðingu. Það eru tillögur hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Menn skulu vera algerlega meðvitaðir um að hann nefndi réttilega að allir vissu, miðað við þessa stöðu sem nú er, að það þarf að spara. Það má færa full rök fyrir því að við séum að fara erfiðustu leiðina þar. Það á að taka á rekstrarþættinum til þess að halda uppi þjónustustiginu fyrir fólkið sem þarf á þjónustunni að halda. Það er ekkert leyndarmál að þá velta menn öllum steinum. Öllum steinum.

En hv. þm. Jón Bjarnason kemur hér og segir: Þetta eigið þið ekki að gera. Þetta eigið þið að láta algerlega í friði. Hann segir okkur hreint og klárt — og ég þakka hv. þingmanni fyrir hreinskilnina — að áherslur hans og hans flokks séu þær að við eigum að skerða þjónustu og við eigum að hækka gjöld á þá sem þurfa á þessari þjónustu að halda því að engar aðrar leiðir eru færar.