136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:47]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og fleiri sem hér hafa tekið til máls lýsa yfir ánægju með þá vinnu sem farið hefur fram í fjárlaganefndinni um fjárlagagerðina. Þetta er vissulega mikið og erfitt verkefni sem menn hafa staðið frammi fyrir en ekki óleysanlegt eins og við sjáum á því sem nefndin hefur hér lagt fram.

Í umræðum um fjárlögin er mikið rætt um að það sé mikil óvissa í stöðunni og að þetta séu niðurskurðarfjárlög o.s.frv. og ég ætla að koma aðeins að því í máli mínu á eftir. Það hefur mikið borið á því að menn setji á langar ræður og velti hlutunum upp og þvæli ýmsum fjárhagslegum stærðum sem og hugtökum fram og til baka, að mínu mati í mikinn óþarfa því málið er í rauninni tiltölulega einfalt.

Ef við tökum nú aðeins til umræðu þá stöðu sem uppi er við fjárlagagerð næsta árs og berum saman við fjárlög ársins 2008 í hverju þetta liggur í raun. Við getum líkt þessu við venjulegt heimilishald, þetta er í rauninni ekkert flóknara en það. Fjölskyldan hefur ákveðnar tekjur, hún hefur föst útgjöld og síðan hefur hún val um það hvort hún getur eytt til annarra þátta en bara venjulegrar starfrækslu heimilisins ef hún hefur efni til þess.

Ef við horfum þannig á ríkissjóðinn og reksturinn þá blasa eftirfarandi staðreyndir við. Í fjárlögum ársins 2008 voru tekjurnar sem menn höfðu úr að spila 473 milljarðar kr. Tekjuspáin fyrir árið 2009 fyrir íslenska ríkið gerir ráð fyrir því að við höfum 402 milljarða. Þetta er tekjufall um 71 milljarð. Að sjálfsögðu hlýtur það að koma einhvers staðar fram. Stærsti einstaki liðurinn sem leggur upp í þetta er að skattarnir á lögaðila lækka um 23 milljarða. Gert er ráð fyrir að fjármagnstekjuskattur einstaklinga lækki um 22 milljarða og áætlað er að virðisaukaskatturinn lækki um 10 milljarða. Þarna er því úr 71 milljarði minna að spila sem hlýtur með einhverjum hætti að hafa áhrif á það sem við leggjum drög að við útgjöld næsta árs. Og hvernig skyldi það líta út? Í fjárlögum ársins 2008 gerðum við ráð fyrir því að eyða 434 milljörðum kr. Tæplega 40 milljörðum lægri fjárhæð en við höfðum í tekjur þannig að afkoman átti að vera þokkalega góð. Maður skyldi ætla að þetta ætti að vera í svipuðum gír, í svipuðu lagi í fjárlögum ársins 2009.

Það er langur vegur frá. Eins og ég nefndi eru tekjurnar áætlaðar 402 milljarðar á næsta ári en við ætlum að eyða 556 milljörðum kr., 150 milljörðum rúmum hærri krónutölu en við höfum úr að spila. Stærsta einfalda breytingin í þessu liggur í vöxtum. Þeir eru að hækka um 65 milljarða á milli ára og síðan eru útgjöld, m.a. til Atvinnuleysistryggingasjóðsins, hækkuð um 10 milljarða.

Er um að ræða einhvern samdrátt í útgjöldum? Er um að ræða einhvern blóðugan niðurskurð? Ég svara því þannig að um það sé ekki að ræða. Það er ekki um neinn blóðugan niðurskurð að ræða í þessum fjárlögum. Það er langur vegur frá. Útgjöldin frá fjárlögum ársins 2008 til fjárlaga ársins 2009 eru hækkuð um 156 milljarða kr. Og hvernig skyldi það líta út eftir málaflokkum? Þar sem menn hafa verið að tala um að við séum að skera niður með blóðugum hnífnum í menntamálum, félags- og tryggingamálum og heilbrigðismálum.

Ég ætla bara rétt að bera þetta örstutt saman. Útgjöld til menntamála á milli fjárlaga ársins 2008 og 2009 hækka um 11,5 milljarða kr., 21%. Útgjöld til félags- og tryggingamála hækka um rúma 30 milljarða, 30,4 milljarða, 36%. Útgjöld til heilbrigðismála hækka um rétt tæpa 20 milljarða, 19,4%. Og svo eru menn að tala um að hér sé blóðugur niðurskurður í gangi. Það er bara alls ekki rétt. Vissulega kemur það við með einhverjum hætti þegar við þurfum að mæta þessu gríðarlega tekjuhrapi en ég fullyrði að það er ekki langt til seilst í þeim efnum í þeim fjárlögum sem liggja fyrir. Miklu, miklu meira og erfiðara verk bíður manna við fjárlagagerð ársins 2010. Þetta er hjóm eitt miðað við þá vinnu sem þar er fram undan.

Ef við horfum aðeins á þetta heimili í þessu ljósi þá erum við að eyða um 150 milljörðum umfram þær tekjur sem við höfum og eigum þá eftir að greiða af þeim lánum sem við höfum þegar tekið á fyrri árum. Áætlun um afborganir af lánum sem við höfum tekið fram til þessa eru 54 milljarðar, þannig að eftir standa um 200 milljarðar sem við verðum að fjármagna á næsta ári fyrir þeim verkefnum sem ætlað er inn í fjárlagatillöguna sem hér liggur fyrir til afgreiðslu. Það sjá það allir menn að þannig getur þetta ekki gengið til lengdar, að við höldum áfram að halda úti ríkisrekstrinum með þessum hætti og skuldsetja okkur fyrir því að halda honum úti. Einhvern tímann kemur að því að við eigum ekki fyrir því sem við ætlum að gera. Sú staða sem er komin upp núna hlýtur að kalla á það í framhaldinu að hert verði á aganum í ríkisrekstri.

Það hefur verið regla um heimildir til stofnana að 4% svigrúm er til eða frá út frá samþykktum fjárlögum. Ég fullyrði að í því ljósi sem ég hef verið að varpa á fjárlög og fjárhagsstöðu ríkisrekstrarins þarf að endurskoða þær reglur.

Það er einnig óhjákvæmilegt að mínu mati að endurskoða þau fjárlög sem hér verða samþykkt, vonandi í dag, tiltölulega fljótt. Ég sé það fyrir mér að við þurfum að fara í fjáraukalagagerð oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á næsta ári. Að mínu mati þarf fjárlagagerðin fyrir árið 2010 og undirbúningur að henni að hefjast í janúar næstkomandi. Það er þannig verk sem bíður að því lengri tíma sem menn gefa sér í undirbúninginn þeim mun betra og þeim mun vandaðri mun vinnan verða. Ég get fullkomlega tekið undir þau sjónarmið og þau orð sem fallið hafa í morgun varðandi fjárlagagerðina sem hér liggur fyrir að hún hefði mátt að ósekju vera miklu vandaðri og fyllri. En í ljósi ástandsins sem var við að glíma þá er ekki við öðru að búast en að þar séu inni einhverjar villur sem þurfa lagfæringar við. Ónákvæmni í áætlanagerð fyrir útgjöld og starfsemi ríkisins er óhjákvæmilega fylgifiskur þeirra vinnubragða sem við höfum því miður þurft að viðhafa við samningu þessara fjárlaga.

Ég ítreka þetta í því ljósi sem ég nefndi áðan að þriðjungur tekna ríkissjóðs er horfinn. Við höfum samt sem áður reynt að mæta þessu með skattahækkunum. Þær duga ekki til til þess að jafna út þennan halla. Við höfum einnig mætt þessu með því að reyna að draga úr ríkisrekstrinum fjárhæð sem nemur um það bil 45 milljörðum kr. Og það dugar heldur ekki til.

Það hefur verið viðtekin venja eins og hv. þm. Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar, nefndi áðan að gera grein fyrir með þokkalega nákvæmum hætti þeim breytingum sem gerðar eru á fjárlagafrumvarpinu milli umræðna. Við gerðum það síðast fyrir 2. umr. fjárlaga ársins 2008 en þetta er allt með öðrum brag í ár og því læt ég það liggja á milli hluta að gera það mjög nákvæmlega núna.

Ein stærsta breytingin sem gerð er lýtur í rauninni að verðlagsuppbótum sem dreift er yfir allan reksturinn og hefur komið upp á móti þeim athugasemdum sem einstaka ríkisstofnanir hafa verið að setja þegar fjárlagatillagan lá fyrir eftir 2. umr. Verðlagsuppfærslurnar eru 13,1 milljarður kr. sem gefur ágætisyfirlit yfir það hversu umfangsmikill þessi ríkisrekstur er og í rauninni flókinn þegar þarf að bæta þetta upp með þessum hætti. Forsendan fyrir þeim uppreikningi gerir ráð fyrir því að verðlagsuppbætur séu um 14% á milli ára.

Ég vil einnig geta þess að fjárlaganefndin hefur reynt að sýna gott fordæmi í vinnu sinni varðandi þau verk sem henni er ætlað að standa skil á. Síðar í dag mun verða lagt fram þingskjal þar sem lagt er til að svokallaðir safnliðir sem hafa verið á verkefnaskrá fjárlaganefndar muni lækka um nokkur hundruð millj. kr. sem ekki var úthlutað. Engu að síður er verulegum fjárhæðum úthlutað til þessara svokölluðu safnliða. Þar eru á ferðinni ýmis verkefni, mjög mörg og merkileg. Í umræðunni ber hins vegar oft á því að lítið sé gert úr þessu. Það kann stundum að helgast af því hvaða nöfn viðkomandi verkefni bera.

Ég gerði mér það til dundurs meðan ég hlustaði á ræður manna í morgun að kíkja örlítið á þetta og staldraði sérstaklega við hin svokölluðu setur. Þau eru mörg og margvísleg. Alls gat ég greint um 20 tegundir af setrum, mismunandi flokka. Stærsta flokkinn skipa setur sem kennd eru við dýr, svo furðulegt sem það nú er. Það er geitfjársetur og hreindýrasetur, setur íslenska hestsins, melrakkasetur, saltfisksetur, sauðfjársetur, selasetur og skelfisksetur. (GuðbH: Arnarsetur.) Og svo arnarsetur. Það bætist við. Þakka þér fyrir, hv. þingmaður. Svo erum við komin í annan flokk sem er kannski óræðari. Það er draugasetrið og skrímslasetrið og sjóræningasetrið. Svo förum við að vera örlítið fræðilegri og þá eru fræðasetrin fugla-, flugu- og sögusetur og þjóðlagasetur, textílsetur, landnámssetur og Þórbergssetur, jarðfræðisetur og Kötlusetur svo ekki sé minnst á öll háskólasetrin og þekkingarsetrin. Það er því af nógu að taka.

Eins og ég gat um áðan þá er stundum gert lítið úr þessu þegar rædd eru einstök atriði. En það kann vel að vera að þetta sé sú leið sem einstaklingar úti um land sem hafa sótt sér þekkingu og menntun á ýmsum sviðum eru að búa til til skapa sér lífsgrunn og tilverugrunn, að skapa sér starfsvettvang úti um land sem er við hæfi þeirrar sérþekkingar sem þeir hafa aflað sér. Og ég fullyrði að þessi skemmtilega flóra allra þessara setra gerir tilveruna, ekki bara úti um land heldur í landinu öllu mun skemmtilegri og það er mjög ánægjulegt að fá tækifæri til að kynnast því mikla starfi sem þar er unnið, ekkert síður en innan þeirra ríkisstofnana sem meiri og lengri hefð er fyrir.

Hins vegar er alveg ljóst og það vil ég undirstrika undir lok ræðu minnar að þessi vegferð er rétt að hefjast. Okkar bíður mikið verk. Það er rétt að það er mikil óvissa í kortunum fyrir komandi ár. Það er hárrétt sem á hefur verið bent, að svo er. Og þess vegna vil ég leggja áherslu á það sjónarmið mitt að það er ekki nóg að gert í því að draga úr útgjöldum í ríkisrekstri miðað við þann tekjugrunn sem maður sér fyrir sér á komandi árum.

Þess vegna verð ég að undirstrika í lokin enn og aftur að það verkefni verður að hefjast þegar í upphafi næsta árs að undirbyggja og undirbúa starfsemi ríkisins undir það vandasama og erfiða verkefni sem bíður við gerð fjárlaga ársins 2010.