136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[12:11]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér við 3. umr. fjárlög fyrir árið 2009 og þetta eru önnur fjárlög sem ég fæ sem fulltrúi í fjárlaganefnd að taka þátt í að móta og get aðeins tekið undir það sem hefur komið fram hér hjá minni hluta og raunar frá hv. formanni og varaformanni einnig í fjárlaganefnd að vinnubrögð hafa á margan hátt verið óhefðbundin. Það hefur orðið að vinna hratt hér síðustu dagana. Það hefur verið of lítill tími til nákvæmrar skoðunar á einstökum liðum og ýmsar áætlanir svo sem gengis- og verðlagsspár hafa komið á síðustu stundu og þess vegna var nú vinnan líka þannig að margt kemur hér inn í 3. umr. sem venjulega kemur inn í 2. umr. í fjárlögum.

Að draga þá ályktun að það hefði átt að fresta fjárlögum til þess að bíða eftir að fá nákvæmari upplýsingar er engu að síður fáránlegt að mínu mati vegna þess að það hefði ekkert legið fyrir eftir einhverjar tvær, þrjár vikur hver niðurstaðan yrði úr samningum varðandi Icesave. Þess vegna hefur meiri hlutinn — og það hefur raunar minni hlutinn tekið undir og er með tillögu um það — valið þá leið að tryggja það frekar að á næsta ári fljótlega verði hafin vinna við fjáraukalög þar sem mál verði skoðuð og betur fylgst með reglubundið og ég held að það skipti mjög miklu máli.

Annað sem hefur vakið athygli mína í þessari fjárlagavinnu er — eins og hefur raunar verið með stofnanir úti um allt land að þær fylgja ýmsum reiknilíkönum — að þá virðast ráðuneytin hafa sett sér mjög stífa ramma sem þau eiga að fylgja, hvert ráðuneyti fyrir sig. Oft og tíðum veldur þetta erfiðleikum þegar um er fjallað vegna þess að þá rúmast ekki mál hjá viðkomandi ráðherrum og erfitt er að hnika til stórum málum eins og ég kem að síðar.

Í síðasta lagi hefur það vakið athygli mína í umræðunni, einmitt kannski út af hraðanum eða ég veit ekki svo sem af hvaða ástæðum, að þá finnst mér í mörgum tilfellum verið að kalla eftir ótrúlega miklum upplýsingum frá ráðuneytum um hitt og þetta, alla vega lista og skýrslur, sem mér sýnist lítið vera gert með, sem kallar á ómælda vinnu í ráðuneytunum eða hjá starfsmönnum þingsins við að útbúa þessa lista. Ég held að við þingmenn, ekki hvað síst í stjórnarandstöðunni, þyrftum að vanda okkur miklu betur við að kalla eftir þessum upplýsingum og við að skipuleggja hvaða upplýsingar eru veittar í sambandi við fjárlagagerð.

Ástæðan fyrir því að ég tek þátt í þessari umræðu sérstaklega er í rauninni fyrst og fremst sú að mér finnst í allri umræðu um mál sem tengjast fjárlögum sérstaklega stjórnarandstaðan hafa gleymt því að íslenska ríkið hefur tapað fjórðungi sinna ráðstöfunartekna. Það er ekkert lítið. Það er hægt að bregðast við með ýmsum hætti. Það er hægt að láta sem ekkert sé og að sumu leyti er það gert (Gripið fram í.) vegna þess að það er verið að draga saman að litlu leyti, að miklu minna leyti en við þurfum að gera til lengri tíma, en útgjöldunum er haldið einfaldlega vegna þess að það skiptir gríðarlega miklu að við förum í gegnum þetta tímabil með þessari svokölluðu sveiflujöfnun þar sem við reynum að halda úti störfum hjá ríkinu nú þegar samdrátturinn er hvað mestur á öðrum sviðum.

Það að segja síðan, eins og hefur komið fram hér, að hér sé blóðugur niðurskurður og gengið harkalega á velferðarkerfið — ég ætla að leyfa mér að vísa því fullkomlega til baka. (Gripið fram í.) Það er alrangt og í allri vinnu sem hér hefur verið unnin af mér sem fulltrúa í félags- og tryggingamálanefnd og af þeim sem hafa komið að þessari vinnu hefur þess sérstaklega verið gætt að gæta hagsmuna þeirra sem lægstu launin hafa (Gripið fram í.) og þeirra sem eru á lífeyri og öðru slíku. Þetta segi ég hér vegna þess að það að leyfa sér það að kalla það — þó að við þurfum að breyta til baka að litlu leyti því sem bætt hefur verið bara á þessum 19 mánuðum sem ég hef verið hér í þinginu, að það skuli að litlu leyti dregið til baka þegar 25% niðurskurður er á ráðstöfunartekjum — að kalla það blóðugan niðurskurð og aðför að velferðarkerfinu er ekkert nema lýðskrum og dónaskapur gagnvart almenningi. Mér finnst skipta mjög miklu máli að það komi fram í þessari umræðu. Ég hef tekið þátt í því að reyna að verja velferðarkerfið og mun gera það áfram og í meginatriðum eru þær tillögur sem koma fram í gegnum þetta fjárlagafrumvarp í þeim anda að þess er gætt. Við getum þó ávallt tekist á um það hvernig við reynum að nálgast viðfangsefni eins og skattlagningu. Ég skal vera fyrsti maður til þess að viðurkenna að við þurfum að skoða mjög alvarlega hvort ekki eigi að taka upp þrepaskatt og þar með hátekjuskatt sem kæmi þá undir í þeim þrepasköttum og ég vænti þess að við fáum tækifæri til að ræða það í framhaldinu.

Í síðustu umræðunni hér, sem sagt núna við 3. umr., komu ýmsar lagfæringar líka sem snúa að menntakerfinu. Gengið er út frá því — menn réðust hér á það við 2. umr. að það væri verið að skera niður lánasjóðinn og að látið væri í það skína að það ætti að skerða kjör námsmanna umfram aðra. Það kemur skýrt fram hér að svo er ekki, þ.e. það stendur ekki til. Lánasjóðurinn er tryggur og það er heldur bætt í hann til baka aftur hér einmitt til þess að gefa þau skilaboð klárlega að það á ekki að skerða kjör námsmanna umfram kjör annarra hópa sem skerðast augljóslega við þá verðbólgu sem er í augnablikinu og við það ástand sem hefur skapast.

Það koma líka til baka nokkur framlög til háskólanna. En sá hængur er á að hér eru skildir eftir landbúnaðarháskólarnir og það verður að harma að ekki skuli búið að ljúka þeirri vinnu sem þarf til varðandi yfirfærsluna á landbúnaðarháskólunum frá landbúnaðarráðuneytinu yfir til menntamálaráðuneytisins og að koma þeim undir það nýja háskólaumhverfi sem þeim er ætlað. Ég treysti á að sú vinna muni eiga sér stað mjög hratt og fljótt þannig að Háskólinn á Hólum fari undir þá áætlun sem sá starfshópur sem þar vann að verkum — sem undirritaður tók þátt í — að farið verði eftir þeim tillögum, skólinn gerður að sjálfseignarstofnun og að hann fái ramma sem hann ræður við til þess að efla sína starfsemi og byggja upp á því svæði. Sama gildir um landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Það þarf að vinda bráðan bug að því að hann fái tækifæri til þess að endurskipuleggja sig og fella sig undir háskólalögin. Hann á töluverðar eignir sem hann getur nýtt og það þarf að ganga frá málum þannig að sá skóli fái líka að dafna og styrkjast sem slíkur.

Í þessum fjárlögum eru gerðar ýmsar lagfæringar sem meðal annars snúa að byggðamálum sem eru mér mjög hugleikin. Reynt er að gæta þess í þeim skýrslum sem gefnar hafa verið út um Vestfirðina, Norðvestur- og Norðausturkjördæmi, öll þau svæði sem fóru eiginlega á mis við þensluna og hagvöxtinn, þ.e. að þar sem höfðu verið gerðar tillögur um útgjöld þá eiga þau flest að vera tryggð í fjárlagafrumvarpinu. Við gengum fast eftir því og það er reynt að tryggja að svo sé. Það gildir þar með um náttúrustofur, háskólasetur og gestastofur. Þó að þær sem nýjastar voru eða áttu að taka til starfa á næsta ári og fá þá fyrstu fjárveitingu séu látnar bíða þá er tryggt að Hornstrandastofa og Surtseyjarstofa verði áfram reknar og fái til þess fjármagn. Látrabjargið aftur bíður en fékk þó fjármagn í fjáraukalögunum og getur þá nýtt það til frekari undirbúnings í framhaldinu.

Það hefur verið töluverð umræða um heilbrigðismálin hér um að í gegnum fjárlög og fjáraukalög komi fram hugmyndir um breytingar þar á skipulagi. Ég vil taka undir það sem hefur komið fram í umræðunni að þar þarf að fara varlega fram og tryggja að þeim markmiðum sem boðuð eru með þeim breytingum, að efla þjónustuna og styrkja hana og gera hana um leið hagkvæmari, verði náð og að sú vinna fari fram með þeim aðilum sem best til þekkja á viðkomandi stöðum. Það getur verið auðvelt að líta á landakortið og sjá að hægt er að reka stofnanir sameiginlega. En fjarlægðirnar eru oft miklu meiri þegar tekið er tillit til vetrarveðra eins og á Patreksfirði eða annars staðar ef menn eiga að sameinast undir einhvern stað þar sem nánast er ekki hægt að hafa nein samskipti við nema þá í gegnum tölvu yfir vetrartímann. (Gripið fram í.)

Við höfum einnig rætt töluvert um Sjúkratryggingastofnun og Tryggingastofnun ríkisins og það er ljóst að í uppgjörinu á milli ráðuneyta varðandi öldrunarmál eða málefni aldraðra á eftir að ljúka vinnunni eins og kemur fram hér í nefndaráliti. Það á líka eftir að stilla upp og klára skiptinguna varðandi Sjúkratryggingastofnun og Tryggingastofnun ríkisins. Sú vinna er í góðum farvegi og lýkur vonandi í byrjun næsta árs.

En annað er að gerast samhliða þeim erfiðleikum sem eru hér í efnahagslífinu, þ.e. að það kemur gríðarleg pressa á lífeyriskerfið. Það er hætta á fjölgun öryrkja, að stíflur bresti, bæði vegna þess að um er að ræða veikindi eða annað sem fylgir atvinnuleysinu eða því álagi sem fylgir fjárhagserfiðleikum sem óhjákvæmilega verður núna við hrun bankanna en líka vegna þess að kjör öryrkja hafa verið bætt stórlega og það eru dæmi um það — ég ætla bara að segja það hér — að meðal annars sveitarfélög sem hafa þurft að borga töluverða félagsþjónustu vísi á tryggingakerfið og bendi mönnum á að sækja frekar um örorkubætur. Við þurfum að sjálfsögðu að vinna gegn þessu og reyna að hafa mat tryggingakerfisins sem allra best. Þar voru uppi miklar hugmyndir um breytt fyrirkomulag og það verður að vinna hratt að þeim hugmyndum áfram. Þar voru hugmyndir um að efla Endurhæfingarsjóð sem var úrvinnsla úr kjarasamningum og sú vinna er sett inn aftur hér í 3. umr., þ.e. fjármagn til þess að vinna að þessum endurhæfingarsjóði og er það vel.

Ég ætla ekki að nota langan tíma til þess að fara yfir öll þau atriði sem eru í fjárlagafrumvarpinu. Ég vildi aðeins nefna þessi atriði og undirstrika að þó að hér sé um að ræða aukningu á tekjum í gegnum skatta, niðurskurð á ýmsum liðum, frestun á framkvæmdum og öðru slíku þá hafa menn reynt að gera það eins varlega og hægt er, reynt að gæta hagsmuna þeirra sem minnst mega sín, reynt að gæta hagsmuna landsbyggðar eftir því sem hægt er og þess vegna stend ég að þeirri fjárlagagerð sem hér fer fram.

Það er mikil vinna fram undan. Þetta er tækifæri til þess að hugsa með nýjum hætti hvort sem er varðandi sameiningu sveitarfélaga eða nýtingu auðlinda. Ég hef áður bent á að það eigi að skoða tekjurnar, meðal annars af auðlindum. Við þurfum að horfa til ferðamálanna og svo framvegis. Forsenda þess að við getum náð hér hallalausum fjárlögum innan nokkurra ára er sú að við höldum tekjunum en líka aðlögum ríkisreksturinn að þeim grundvallarþáttum sem við viljum að hann sinni.

Varðandi sameiningu sveitarfélaga þá held ég að menn eigi að horfast mjög harkalega í augu við það að eitt af vandamálunum sem sköpuðust hér á velmegunarárunum á undaförnum árum er kapphlaupið á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Að setja sér markmið, eins og Reykjavíkurborg gerði, að fjölga íbúum um 15% þá átti auðvitað að fylgja þeirri áætlun hvaða landshluta þeir ætluðu að flytja til Reykjavíkur. Svona hugmyndir þarf að vinna allt öðruvísi en gert hefur verið hingað til og það gildir líka að horfa upp á að á höfuðborgarsvæðinu veita sveitarfélögin mjög ólíka þjónustu og kasta þannig hvert til annars verkefnum eins og leiguíbúðum eða félagslegu húsnæði þar sem menn hegða sér með ólíkum hætti. Þó að oft sé horft til litlu sveitarfélaganna og að þau þurfi að sameinast þá þarf ekki síður að horfa til stjórnsýslunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Fjárlögin eru unnin á miklum hraða. Það þýðir að við þurfum að fara fyrr í endurskoðun og bæta vinnubrögðin og það er verkefni okkar í náinni framtíð.