136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[12:25]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hafi hv. þm. Magnús Stefánsson skilið mig svo að það væri dónaskapur að fjalla um hvaða breytingar eru gerðar í fjárlagafrumvarpinu biðst ég afsökunar á því. Dónaskapurinn felst í orðalaginu. Hvað ætla menn að kalla niðurskurðinn væri hann mun meiri og ef við hefðum horfið aftur til þess tíma sem var þegar Framsókn og sjálfstæðismenn stjórnuðu ein? Hvað kallast þetta þá? Það héti ekki blóðugur, það mundi væntanlega heita hrein og klár hryðjuverk eða ég veit ekki hvað ætti að kalla það.

Ég átti eingöngu við þau hástemmdu lýsingarorð sem hafa verið notuð um það sem er að gerast. Það er enginn að reyna að leyna því að það verður niðurskurður og hann verður á almennu launafólki vegna verðbólgunnar. Því er spáð að kaupmáttur rýrni um allt að 10–15% á næsta ári. Hjá bændum rýrnar hann mun minna, hjá lífeyrisþegum miklu minna. Ég hef haldið því fram að það sé verið að snúa hlutunum á hvolf með því að segja að þeir sem harðast verði úti séu lífeyrisþegarnir. Það sem ég er að gagnrýna er orðanotkunin en ekki það að veita upplýsingar, því að það er einmitt það sem okkur vantar, þ.e. að veita betri upplýsingar, að hafa hófstilltari umræðu með réttlátari upplýsingum en ekki að reyna að hreykja sér með einhverju lýðskrumi eða feluleik.

Ég ætla að taka það fram af því að hv. þm. Magnús Stefánsson kemur í andsvar að þetta á ekki við hv. þm. Magnús Stefánsson, ég er miklu frekar að lýsa málflutningi einstakra þingmanna Vinstri grænna svo það hafi verið sagt.