136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[12:28]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kann að vera að ég ætti að nafngreina alla þá sem hér hafa notað hástemmd lýsingarorð um það sem hefur verið að gerast. Ég leyfði mér að segja stjórnarandstaðan, einfaldlega vegna þess að hún kemur ein og heil með andstöðuna við fjárlagafrumvarpið og notar sum af þessum orðum (Gripið fram í: Nei.) í sínu áliti, þ.e. hófstilltari en ég talaði um og ég mundi ekki kalla það dónaskap en engu að síður leyfi ég mér að fullyrða að þar sé að sumu leyti um að ræða ýkjur á ástandinu.

Varðandi landbúnaðarháskólana þá verð ég að vísa því til menntamálaráðherra að svara umfjölluninni um þá. Ég deili áhyggjum með hv. þm. Magnúsi Stefánssyni af skólunum. Ég tel þó að svigrúmið sé nægjanlegt innan háskólasamfélagsins og útgjalda til menntamála í heild að koma þessum skólum inn í ramma laga um háskóla. Ég held að þarna sé fyrst og fremst um það að ræða að menn hafi ekki lokið vinnu sinni og treysti á að það verði gert í framhaldinu, en það er auðvitað alveg lífsspursmál að atvinnugreinaskólar eins og landbúnaðarháskólarnir fái svigrúm til að dafna og þjónusta þær atvinnugreinar sem þá snerta.