136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[12:32]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. Jón Bjarnason þurfi ekkert að vorkenna mér frekar en öðrum að takast á við þann vanda sem við horfumst í augu við. Ég á bara ekki þann kost að nota þá aðferð sem flokksfélagar hans hafa notað að fela bara veruleikann, taka ekkert á honum og stinga upp á hækkunum og helst ekki hækka neina skatta eða bregðast neitt við og segja: Við hefðum ekki átt að taka lán, en um leið að tala um að við hefðum átt að vera með miklu hærri gjaldeyrisvarasjóði o.s.frv. Það er ekkert auðvelt að takast á við þessa hluti en ég vorkenni mér ekki að gera það frekar en öðrum.

Varðandi tekjuskattinn og hækkunina er ástæðan fyrir því að ég get með góðri samvisku samþykkt þá hækkun einfaldlega sú að það er hækkun á skattleysismörkum samhliða. Það þýðir að tekjuskatturinn byrjar ekki að telja á lægstu launin. Þetta á hv. þm. Jóni Bjarnasyni að vera ljóst og hv. þingmaður getur skoðað hvar þessi mörk skerðast. Það er ekki verið að skerða láglaunafólkið hvað varðar tekjuskattinn.

Varðandi tónlistarskólamálin deilum við þeim áhyggjum. Þarna átti auðvitað að vera búið fyrir löngu að ljúka málum en í því ferli eru samskipti sveitarfélaga og ríkisins og verið er að deila og véla um útgjöld þar hvort á sinn veginn. Í menntamálanefnd og víðar hefur komið fram að þetta sé allt í eðlilegum farvegi og ég treysti á að þessum málum verði lokið.

Ég deili jafnframt þeim áhyggjum að fólk þurfi að sækja langt í framhaldsskólanám. Sömuleiðis hefur þar verið tekið vel á málum, t.d. með framhaldsdeildum eins og á Tálknafirði. Það er ekki verið að skerða það á neinn hátt í fjárlagafrumvarpinu, það er ekki verið að minnka neitt möguleikana í sambandi við það. Jöfnun til námskostnaðar kemur inn nú í 3. umr., þ.e. hækkun aftur til baka. Ég treysti því á að við getum sameiginlega staðið vörð um að fólk geti stundað nám sem næst sínu heimili.