136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[12:37]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. þingmaður. Ég held að ég geti svarað fyrirspurnum hv. þm. Jóns Bjarnasonar með einföldu jái. Að sjálfsögðu hef ég áhuga á því að beita mér fyrir því að sem hagstæðust niðurstaða náist varðandi heilbrigðisstofnanir á Norðvesturlandi sem og annars staðar og að þess sé gætt að markmiðin hvað varðar þjónustu séu í forgrunni. Við verðum auðvitað líka að hafa markmið heildarinnar í huga, að við höfum efni á því að reka þá þjónustu sem rekin er. Þess vegna vil ég alls ekki útiloka að það eigi sér stað mikil og góð vinna í sambandi við hvernig við getum samnýtt stofnanir, deilt verkefnum á milli stofnana og tryggt þannig betri þjónustu með heildstæðara yfirliti. Sú vinna þarf að fara fram og er að sumu leyti í gangi. Ég ætla að treysta því að svo verði áfram og því verði betur fylgt eftir með markmið landsbyggðarfólksins í huga.

Við deilum örugglega áhyggjum af því fólki sem þarf að sækja langt í þjónustu. Við erum nýbúin að afgreiða m.a. frumvarp um þjónustumiðstöð fyrir sjónskerta og fleiri. Þar var einmitt tekið sérstaklega fram að þess yrði gætt að sú þjónusta væri í boði fyrir alla landsbyggðina og að menn mundu gæta þess í gjaldskrá og með öðrum hætti að tryggja að fólki væri ekki mismunað eftir búsetu. Það er markmiðið í öllu því sem við gerum.