136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[14:26]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér fer fram lokaumræða um fjárlög ársins 2009 og væri auðvitað hægt að hafa langt mál um alla þá málsmeðferð á þessu hausti og til þessa dags, daginn fyrir Þorláksmessu.

Eins og allir vita hafa málin verið afar óvenjuleg undanfarnar vikur og mánuði og málsmeðferð við afgreiðslu fjárlaganna hefur einnig verið það og margt við vinnulagið að athuga. Kannski sérstaklega það að tillögur frá ríkisstjórn hafa komið afar seint hingað inn til afgreiðslu, bæði varðandi fjárlögin sjálf og fjáraukann. Það hefur skapað mikla tímapressu í vinnubrögðum og oft komið upp að mönnum hefur fundist vanta upplýsingar. Það hefur einkennt störfin sérstaklega að það hefur verið beðið eftir upplýsingum um eitt og annað fyrir utan tillögur ríkisstjórnarinnar.

En það sem upp úr stendur eftir þessa vinnu í haust er ýmislegt sem snýr að þjóðinni á komandi ári og tengist þeim áföllum og miklu álögum sem á íslensku þjóðinni er að lenda. Við getum auðvitað kvartað undan samráðsleysi og ýmsu varðandi vinnubrögð í fjárlaganefndinni og lýst áhyggjum okkar eins og við gerum í minnihlutaálitinu varðandi ýmis þjónustustig, m.a. í heilbrigðisþjónustunni og öldrunarstofnunum. En stærsta vandamál okkar á næsta ári verður það hvernig við munum takast á við að halda hér uppi atvinnu og hvernig við getum litið til þess að þurfa ekki að horfa í framtíðinni á endalausan niðurskurð fjárlaga til ýmissar þjónustu, heilbrigðismála, velferðarmála, menntunarmála o.s.frv., hvernig við getum sameiginlega unnið okkur út úr þeim vanda sem fram undan er.

Ég held, hæstv. forseti, að það sé best gert með því að við reynum sameiginlega að afla þjóðfélaginu nýrra tekna. Ef við horfum til þess að reyna að gera það, að byggja undir atvinnustarfsemina og byggja undir það að menn geti aflað nýrra tekna sem komi þjóðfélaginu til góða þá erum við líka að vinna gegn atvinnuleysinu en á upphafsmánuðum næsta árs virðist ætla að stefna í að 10.000 manns verði á atvinnuleysisskrá. Það er ástand sem við megum ekki horfa á til framtíðar, ástand sem við getum búið við. Við verðum með öllum tiltækum ráðum að reyna að vinna gegn atvinnuleysinu. Þar fara auðvitað saman hagsmunir okkar að afla nýrra tekna, viðbótartekna inn í þjóðfélagið og að minnka atvinnuleysið.

Við í Frjálslynda flokknum höfum marglagt það til á þessu þingi og í öllum umræðum í haust, að við reynum með öllum tiltækum ráðum að afla þjóðinni nýrra tekna. Við höfum bent á sjávarútveginn í því sambandi, sjávarútveginn sem margir töluðu um á uppgangstímum fjármálafyrirtækjanna að væri orðinn jafnvel hliðarbúgrein vegna þess að við stefndum í að verða fjármálaveldi. Við stefndum í að verða ríki þar sem fyrirtæki vildu koma fyrir fjármunum sínum, jafnvel efna til alþjóðlegrar bankastarfsemi og skrá hér alþjóðleg fjármálafyrirtæki. Við gætum orðið alþjóðleg fjármálamiðstöð og það var vissulega horft til þeirra tekna sem komu inn í ríkissjóð af starfsemi bankanna sérstaklega og annarra útrásarfyrirtækja á fjármálasviði og í verslun og ýmsum fleiri atriðum.

Því miður, hæstv. forseti, þá hrundi spilaborg fjármálakerfisins og íslenska þjóðin stendur frammi fyrir því að taka þær ábyrgðir á sig með mikilli lántöku til að reyna að viðhalda hér eðlilegu fjármálalífi og starfsemi fjármálafyrirtækja og ekki síður ef svo fer sem stjórnvöld virðast stefna í að sé í vændum að gerðir verði sérstakir samningar við Breta og Hollendinga um svokallaða Icesave-reikninga og ábyrgðir okkar á þeim. Ef það allt saman lendir á íslensku þjóðinni til viðbótar við það sem er í fjárlagafrumvarpinu um vaxtabyrði upp á 87 milljarða kr. eins og er samkvæmt þeirri áætlun sem liggur fyrir þá má leiða líkum að því að viðbótarvaxtabyrðin vegna Icesave-lánanna, ef menn ætla að ganga til þess samkomulags, sem ég dreg mjög í efa að íslenska ríkið eigi að gera, þá gætum við verið að tala þar um viðbótarvaxtabyrði upp á 30–40 milljarða kr., þ.e. ef við gefum okkur að vextirnir séu á bilinu 5–8%. Það væri náttúrlega slík viðbót að það er varla séð að við réðum við það að þurfa að bera slíka vaxtabyrði, á annað hundrað milljarða kr. á ári, jafnvel þótt það væri ekkert nema vaxtabyrðin, engar afborganir, samhliða því að tekin hafa verið önnur lán sem þarf að borga vexti af og væntanlega afborganir á næstu árum.

Þess vegna segi ég það, hæstv. forseti, að við Íslendingar getum ekki horft inn í þá framtíð að hér verði vandamál framtíðarinnar leyst með niðurskurði aðallega í þjónustu og rekstri, m.a. heilbrigðiskerfis og velferðarkerfis og menntakerfis. Við verðum að afla nýrra tekna. Það er eina leiðin sem dugar okkur, vissulega samhliða aðhaldi og niðurskurði. Við verðum að afla nýrra tekna. Í því getum við ekki verið með nein vettlingatök og við verðum að leyfa okkur að taka áhættu varðandi það að afla nýrra tekna. Sá sem hér stendur telur reyndar að engin áhætta sé fólgin í því að taka ákvörðun um að auka þorskaflann um 90–100 þús. tonn næstu þrjú til fjögur árin.

Það mundi hins vegar að gefa nokkuð marga tugi milljarða í nýjar útflutningstekjur sem mundu fara til þjóðfélagsins í launum og aðkeyptri þjónustu fyrir sjávarútveginn. Viðbótarkostnaður sjávarútvegsins og útgerðarinnar við að veiða þessi tonn er sáralítill, vegna þess að skipin eru jú á sjó og það er enginn vandi að taka meiri afla á sjó en gert hefur verið.

Sama má segja um fjárfestinguna í vinnslustöðvum. Það þarf ekki að leggja í mikinn kostnað við það. Það eru hendur, það er fólk sem kemur að þessari tekjuöflun, fleira fólk bæði í veiðum og vinnslu og síðan þjónustuaðilarnir sem kannski þurfa að þjónusta fyrirtækin betur þegar þau eru í meiri verkum og meira úthaldi. Þetta mundi fara um þjóðfélagið sem margföldun og gefa okkur nýjar skatttekjur vegna hærri tekna.

Ég minni einnig á ferðaþjónustuna, hæstv. forseti, sem ég held að skipti rosalegu miklu máli fyrir framtíðina og að mjög auðvelt sé að auka ferðamannastraum hingað og hafa meiri tekjur af ferðamannaþjónustunni. Þetta eru þau nýju tækifæri sem ég held að við getum gengið í og að hægt sé að ganga í með vilja og ákvörðunum stjórnvalda. Síðan má auðvitað benda á nýtingu orkunnar og fyrirtækja á því sviði sem hana nýta sem möguleika sem við þurfum vissulega einnig að horfa til.

Svo þarf auðvitað að horfa til þess sérstaklega að íbúðareigendur bera við núverandi aðstæður óheyrilegan lánakostnað sem er ekki á þá leggjandi miðað við núverandi aðstæður þegar dregur úr raunlaununum og kostnaður við heimilin vex samfara lánunum. Þar verður að grípa inn í með aðferð sem dugar til þess að ekki verði fjöldagjaldþrot þess fólks sem á undanförnum árum, með endalausum ráðleggingum þeirra sem voru starfandi í bankakerfinu um að taka nú þessi lán eða hin og meiri lán ef á þyrfti að halda o.s.frv. verður nú fyrir þeim gífurlega skaða sem fylgir mikilli verðbólgu, hreyfingu gengisins eins og það hefur verið og þar af leiðandi verðtryggingunni og vísitölubindingu lána. Á þessu verðum við að taka til þess að atvinnustarfsemi haldist áfram í þjóðfélaginu og að við sköðumst eins lítið og mögulegt er við að taka á málum til framtíðar.

Menn hafa verið að velta fyrir sér skattlagningu, ég hef heyrt menn nefna það. Það kann vel að vera að við þurfum að grípa til þess til framtíðar en þá segi ég, hæstv. forseti, þá verðum við að grípa til þess að vernda þá sem lægstar hafa tekjurnar. Sem þýðir þá annaðhvort þrepaskiptur skattur, hærri sérstakur persónuafsláttur eins og við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til sem eyðist út við hærri tekjur eða hátekjuskattur. Til alls þessa þurfum við að horfa. Það kann einnig að vera að við þurfum að horfa á hærri fjármagnstekjuskatt hjá þeim sem mestar hafa fjármagnstekjurnar.

Ég held nefnilega að hvernig sem á málið er litið þá verðum við að horfa alls staðar til þess hvar við getum aflað tekna. Ég segi enn og aftur að við getum gert það best með því að auka atvinnustarfsemina og auka tekjurnar. Við getum reynt að bregðast við og vernda fjölskyldurnar sem er annars geysilega mikið mál sem ég hef vikið að og við getum vissulega fundið einhverjar viðbótartekjur í skattkerfið. Við getum líka minnkað kostnað við að skera niður en þar er okkur hins vegar skorinn þröngur stakkur því við ætlum okkur að reyna að halda við velferðarþjónustunni, heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu.

Allt þetta, hæstv. forseti, þurfum við að fást við á næstu árum. Ég minni á í lokin að við erum að vega að (Forseti hringir.) þeirri stofnun sem menntar íslenska bændur, landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, þar sem ekki á að taka á vanda hans og skiljum við þá stofnun sérstaklega eftir í miklum vanda á næsta ári. (Forseti hringir.)