136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[14:53]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að blanda mér lengi í umræðuna. Mig langar þó að árétta það sem hér var rætt í fyrri umræðu, 2. umr. um fjárlögin, um þann mikla niðurskurð sem boðaður er í fjárlagafrumvarpinu í ár í menntamálum upp á rúmlega 4 milljarða. Viðbrögð samfélagsins við þessum niðurskurði hafa verið rík og sterk og okkur þingmönnum í menntamálanefnd Alþingis og þingheimi öllum líklega hafa borist mörg bréf um þessi mál bæði frá háskólum og framhaldsskólum. Mig langar að halda þessu til haga í þessari pontu að fólk í skólasamfélaginu hefur verulegar áhyggjur af því hvert stefni með þeim fjárlögum sem hér er verið að afgreiða í þessum mikla flýti, svo miklum flýti að hér eru breytingartillögur enn að berast og eru settar á dagskrá hér með afbrigðum nú þegar tveir dagar eru til jóla.

Mig langar að nefna sérstaklega niðurskurðinn til Háskóla Íslands en í fyrra fjárlagafrumvarpi, því sem hér var kynnt í október, hafði verið boðuð hækkun á framlögum til Háskóla Íslands upp á rúm 20%, 20,8%, en skerðingin frá því frumvarpi er núna tæp 11% (Gripið fram í.) og er skerðingin mest á Háskóla Íslands, langmest á Háskóla Íslands sem einnig hækkaði hlutfallslega minna en til að mynda Háskólinn í Reykjavík eða Háskólinn á Bifröst sem fengu veglegri hækkanir í fyrra frumvarpi, þessir einkareknu skólar sem hafa verið sérstök óskabörn menntamálayfirvalda Sjálfstæðisflokksins í gegnum árin og fá einnig minni skerðingu núna þegar ráðist er í skerðingar, 7,2% í tilfelli Háskólans í Reykjavík og 8,5% í tilviki Háskólans á Bifröst.

Það má kalla að hér sé vegið að Háskóla Íslands sem sá fram á bjartari tíð eftir áralanga sveltistefnu þar sem ekki hefur tekist að manna stöður sem hafa losnað þegar kennarar hafa hætt sökum aldurs svo dæmi sé tekið. Greinar hafa setið eftir og verið reknar á fáum föstum starfskröftum og svo ódýru vinnuafli stundakennara og nýdoktora sem hafa lagt af mörkum ómælda stundakennslu fyrir lágmarkslaun og ekki getað sinnt rannsóknum gegn greiðslu nema að mjög litlu leyti. Það er líka alvarlegt mál að Háskólasjóðurinn, sem hefur gert þessu unga fræðafólki auðveldara fyrir, er núna skorinn um hartnær 120 milljónir. Rekstrarframlagið er svo lækkað um 270 og rannsóknarframlaginu, sem var nú fagnað hér og klappað mikið fyrir í fyrra, er frestað. Það eru því dökkir tímar fram undan hjá Háskóla Íslands á sama tíma. Við reynum að leita leiða og lausna í kreppunni og höfum nefnt menntun oftar en einu sinni og oftar en tvisvar en þá er hún skorin með þessum svakalega hætti og hafa þingmönnum borist erindi, meðal annars frá Félagi prófessora við ríkisháskóla sem mótmælir harðlega boðuðum niðurskurði fjárveitinga til Háskóla Íslands og bendir á að Háskóli Íslands veiti þegar hagkvæmustu menntun sambærilegra námsleiða við íslenska háskóla samkvæmt nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar og hefur yfir að ráða kennurum og sérfræðingum í fremstu röð.

Ég leyfi mér að vitna í þetta bréf frá Félagi prófessora við ríkisháskóla, með leyfi forseta:

„Boðaður niðurskurður ræðst helst gegn rannsóknum og framhaldsnámi við skólann sem eru mikilvægustu vaxtarbroddar háskólastarfsemi í landinu.“

Þetta er hið alvarlegasta mál því að þeir sem hafa kynnt sér þessi efni vita að fræðasamfélög lifa og hrærast með þeirri nýliðun og þeirri nýsköpun sem í þeim verður, nýsköpun í rannsóknum og nýliðun í fólki. Ef sú hætta vofir yfir íslenskri akademíu að eldast þá munum við ekki endilega finna leiðirnar þar út úr kreppunni ef unga fólkið okkar hverfur af landi brott og nýsköpunarfjármagni í rannsóknum við háskólana er frestað.

Háskólaráð Háskóla Íslands hefur líka sent okkur bréf þar sem bent er á efnislega að nú sé gerð sú krafa á hendur háskólanum að opna sínar dyr og taka við auknum fjölda umsókna um nám á vormissiri 2009 til að bregðast við afleiðingum fjármálakreppunnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í því skyni rýmkaði skólinn umsóknarfrest um nám til 15. desember. Alls hafa borist yfir 1.600 umsóknir um nám á grunn- og framhaldsstigi, sem svarar til um 13% af heildarnemendafjölda háskólans. Þessi mikla eftirspurn sýnir mikilvægi háskólans og þær væntingar sem gerðar eru til hans. Háskóli Íslands mun axla samfélagslega ábyrgð í þessu efni, en á hinn bóginn eru takmörk fyrir því hversu langt er unnt að ganga þannig að gæði starfseminnar hljóti ekki skaða af. Þess vegna hlýtur háskólaráð að gera ráð fyrir að stjórnvöld samþykki sérstaka fjárveitingu til þess að hægt sé að mæta þeim viðbótarkostnaði sem af þessu myndi hljótast fyrir Háskóla Íslands.“

Staðan er því alvarleg hjá háskólum þessa lands.

Mig langar líka að ræða hér framhaldsskólana. Þeir hafa búið við þröngan rekstur árum saman og því tengt er það reiknilíkan sem notað er til að dreifa fjármunum til framhaldsskólanna sem upphaflega miðaðist mjög við hefðbundna bóknámsskóla en hefur nú verið í endurskoðun um alllangt skeið og vonandi fer henni að ljúka. Skólarnir hafa verið reknir með miklu aðhaldi en nú er boðaður niðurskurður upp á hálfan milljarð. Félag framhaldsskólakennara hefur sent okkur ályktun sína þar sem þeir segja hreinlega, með leyfi forseta:

„Framhaldsskólar hafa verið reknir með miklu aðhaldi í mörg ár. Margir telja að ekki sé hægt að ganga lengra í þá átt. Ef breytingartillögurnar ná fram að ganga er illa komið fyrir framhaldsskólum landsins.“

Þar verðum við líka að muna að þessar mikilvægu undirstöðustofnanir okkar, framhaldsskólarnir, þar sem unga fólkið okkar stundar nám daglega og búið er að skera niður forfallakennslu, svo dæmi sé tekið, alfarið þannig að nú má enginn veikjast lengur án þess að kennsla falli niður, þ.e. þessi mikli niðurskurður mun bitna á þeim sem hafa átt við erfiðan rekstur að stríða núna árum saman.

Að lokum langar mig að nefna lánasjóðinn þar sem gengið er á eigið fé á sama tíma og námsmannahreyfingar hafa gert kröfu um að lánasjóðurinn verði efldur enn til þess að tryggja að fólk geti sótt um lán til sjóðsins og stundað nám í háskóla. Grunnframfærsla lánasjóðsins á mánuði er 100.600 kr. og er hún ætluð til að duga fyrir framfærslu eins einstaklings sem býr á eigin vegum. Það sjá náttúrlega allir að slík upphæð dugir vart til framfærslu á heilum mánuði. Ekki eru miklar líkur til að þessi framfærsla hækki mikið þegar framlög til sjóðsins eru skorin niður um 1 milljarð og 400 milljónir. Þó að því sé lofað að þetta muni ekki bitna á þjónustu sjóðsins þá á ég erfitt með að sjá það þegar gengið er með þessum hætti á eigið fé. Við vitum hvað er fram undan á árinu 2010 því að við höfum rætt það að þessi fjárlög verði erfið og búið er að boða að fjárlögin 2010 muni verða hálfu verri. Nú göngum við á eigið fé lánasjóðsins með þessum hætti. Hvernig ætlum við að leysa mál hans á næsta ári — mér er spurn — á sama tíma og við beinum æ fleirum í háskólanám og ætlumst til þess að skólarnir taki við fólki á sama tíma og atvinnuástand versnar og að við nýtum þetta tækifæri? Þetta hefur verið kallað tækifæri til þess að bæta hér menntunarstig landsmanna. Við gerum það ekki ef við ætlum að ganga af lánasjóðnum dauðum.

Ég hef áhyggjur, virðulegi forseti. Ég hef áhyggjur af þeim aðgerðum sem hér eru boðaðar í menntamálum þjóðarinnar. Ég hef áhyggjur af framhaldsskólunum okkar, háskólunum og lánasjóðnum. Ég hef áhyggjur af sveitarfélögunum sem reka þjónustu við leikskóla- og grunnskólabörn og sjá líka fram á erfiðari tíma í rekstri. Hv. þingmaður sem hér talaði á undan mér, Grétar Mar Jónsson, nefndi hugmyndir sem hafa verið uppi um að bjóða upp á gjaldfrjálsar máltíðir í skólum. Við höfum verið að lesa um dæmin frá finnsku kreppunni þar sem börn borðuðu ekki heita máltíð frá föstudegi til mánudags en fengu hana þó í skólunum. Þetta er auðvitað gamalt baráttumál okkar vinstri grænna. En það verður erfitt að sjá að sveitarfélögin muni hafa nokkurt aukið svigrúm í þeim aðgerðum sem eru boðaðar í þessu fjárlagafrumvarpi.

Að lokum langar mig að nefna það, virðulegi forseti, að ég las í Morgunblaðinu í dag, tilvitnun í Dominique Strauss-Kahn, yfirmann Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem við höfum rætt svo mikið um hér í þessum sal upp á síðkastið. Þar er sem sagt vitnað í Dominique Strauss-Kahn þar sem hann ræðir nauðsyn þess til þess að bregðast við kreppunni, þ.e. að það þurfi að færa fé til lágtekjuheimila með auknum atvinnuleysisbótum, auka þurfi skattfríðindi handa lágtekjufólki og fjármagna þurfi stórverkefni, sérstaklega þau sem séu þegar komin á teikniborðið.

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins segir, með leyfi forseta:

„Það er athyglisvert að heyra þessi orð frá forustumanni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og bera saman við þær aðgerðir, sem hér er verið að grípa til. Það er ekki beinlínis hægt að segja að þar sé mikill samhljómur.“

Það er vissulega rétt. Það er ekki mikill samhljómur milli þess að fara í flata skattahækkun eftir þær flötu skattalækkanir sem hér hafa tíðkast og nýta ekki færið til þess að dreifa nú skattbyrðinni á réttlátari hátt, taka upp þrepaskiptan hátekjuskatt eins og við þingmenn Vinstri grænna höfum lagt til í okkar frumvörpum og reyna að stuðla að auknum jöfnuði í þessu landi með því að dreifa byrðunum á réttlátar og láta þá sem meira hafa á milli handa leggja meira fram og hlífa þeim sem minnst hafa milli handa. Það hefur ekki verið mikill samhljómur um það hjá ríkisstjórnarflokkunum, hvorki Sjálfstæðisflokknum né þeim flokki sem kennir sig við jöfnuð í daglegu tali.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa orð mín miklu fleiri að þessu sinni. Ég ítreka þó að ég tel að best hefði verið að veita hér tímabundnar fjárveitingarheimildir fram yfir áramót og vinna fjárlagafrumvarpið áfram í janúar. Ég held að þær tillögur sem nú eru enn að berast inn í þingsali og þarf afbrigði í hvert sinn til að samþykkja, sýni best að þetta frumvarp er ekki klárað enn þá.