136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[15:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég geri hér grein fyrir framhaldsnefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar en auk mín skrifa undir álitið hv. þingmenn í meiri hluta fjárlaganefndar, Kristján Þór Júlíusson, varaformaður nefndarinnar, Björk Guðjónsdóttir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Guðbjartur Hannesson, Illugi Gunnarsson, Ásta Möller og Ármann Kr. Ólafsson.

Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar eftir 2. umr. og leitað m.a. skýringa hjá ráðuneytum. Meiri hlutinn gerir breytingartillögur við sundurliðun 2 sem nema alls 1,36 milljörðum kr. til hækkunar gjalda. Engar breytingar eru gerðar á tekjugrein frumvarpsins frá 1. umr. en gerðar eru breytingar á 2. gr., sjóðstreymi ríkissjóðs, í ljósi frekari gjalda, samanber sundurliðun 2. Einnig liggja fyrir breytingar á 5. og 6. gr. laganna sem birtast í greinum 3 og 4.

Fulltrúar fjármálaráðuneytisins komu á fund nefndarinnar til viðræðna um tekju- og gjaldahlið frumvarpsins en nokkrar breytingar komu frá ríkisstjórn fyrir 3. umr. Þá hefur nefndin kallað eftir sérstökum skýringum frá Fjármálaeftirlitinu og viðskiptaráðuneytinu á ósk um viðbótarfjárveitingu að upphæð 549 millj. kr. vegna aukakostnaðar sem féll á Fjármálaeftirlitið í kjölfar neyðarlaga, nr. 125/2008. Ítarlegt minnisblað var lagt fram á fundi nefndarinnar vegna þess.

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. þingskapa getur fjárlaganefnd vísað til efnahags- og skattanefndar þeim þáttum fjárlagafrumvarpsins sem fjalla um lánsfjárheimildir og tekjuhlið frumvarpsins. Meiri hluti nefndarinnar telur að í framtíðinni geti það verið kostur að vísa breyttum tekju- og lánsfjárheimildum á fjáraukalögum hverju sinni til efnahags- og skattanefndar til umsagnar. Hafa formaður fjárlaganefndar og formaður efnahags- og skattanefndar rætt slíkt fyrirkomulag. Það mundi án efa styrkja efnis- og málsmeðferð þingsins. Í ljósi þess vil ég vísa til umræðu hér fyrr í dag um fjárlög en þá var gerð grein fyrir því að hv. þm. Pétur Blöndal og Ögmundur Jónasson komu inn á fund fjárlaganefndar til að gera grein fyrir meiri- og minnihlutaálitum efnahags- og skattanefndar varðandi fjárlögin.

Virðulegur forseti. Ég ítreka nú þætti sem snúa að framkvæmd fjárlaga en ég tel að dropinn holi steininn í þeim efnum.

Einn af mikilvægum þáttum í störfum fjárlaganefndar er eftirlitshlutverk nefndarinnar með framkvæmd fjárlaga. Þar hefur verið unnið náið með Ríkisendurskoðun og fjárreiðu- og eignaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Til þess að eftirlitsþátturinn geti orðið enn virkari þarf að bæta aðgang þingsins að upplýsingakerfum.

Meiri hluti fjárlaganefndar vísar til beiðni forstöðumanns nefndasviðs Alþingis til fjársýslustjóra þar sem óskað var eftir skoðunaraðgangi að helstu upplýsingakerfum ríkisins fyrir fjárlaganefnd Alþingis. Í beiðninni fólst ósk um aðgang að sömu vefskýrslum og eru til notkunar hjá Ríkisendurskoðun. Jafnframt þarf fyrirspurnar- og skoðunaraðgang að nokkrum öðrum kerfum. Í svörum Fjársýslu ríkisins kemur fram að hún hafi yfirumsjón með þessum kerfum fyrir hönd fjármálaráðuneytisins og muni vísa þessu erindi til ráðuneytisins. Beiðni nefndarinnar hefur síðan verið ítrekuð á fundi fjárlaganefndar með fjárreiðu- og eignaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Meiri hluti fjárlaganefndar vill nú enn á ný ítreka mikilvægi þess að veittur sé aðgangur að kerfunum.

Á reglulegum fundum fjárlaganefndar fer fjárreiðu- og eignaskrifstofa fjármálaráðuneytisins yfir árshlutaskýrslur fjármálaráðuneytisins um framkvæmd fjárlaga. Eru þær gerðar vegna fyrirmæla í 9. gr. reglugerðar nr. 1061/2004, um framkvæmd fjárlaga. Þá er jafnframt tilkynnt að fjármálaráðuneytið sendi ráðuneytum bréf þar sem mælst er til þess að þau afli skýringa forstöðumanna eftir því sem við á með tilliti til þess að um umframgjöld sé að ræða og upplýsi fjármálaráðuneytið um fyrirhugaðar aðgerðir í kjölfarið.

Í ljósi laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, og fyrrgreinda reglugerð um sama mál vill fjárlaganefnd Alþingis — þ.e. meiri hluti hennar, ég geri ráð fyrir því að minni hlutinn sé nokkuð samhljóma í þessu — ítreka mikilvægi þess að ráðuneyti bregðist skjótt við og svari beiðni um áðurnefndar upplýsingar.

Meiri hluti fjárlaganefndar minnir á frumkvæðisskyldu ráðuneyta við eftirlit, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 1061/2004, um framkvæmd fjárlaga, og skyldur forstöðumanna vegna umframútgjalda, sbr. 15. gr. sömu reglugerðar. Ríkisendurskoðun hefur komið sömu sjónarmiðum á framfæri í skýrslum um framkvæmd fjárlaga og tekur meiri hluti fjárlaganefndar Alþingis undir þau sjónarmið.

Það er afar mikilvægt að mati meiri hluta fjárlaganefndar að ráðuneyti leggi sjálfstætt mat á framkomnar skýringar, sbr. 17. gr. reglugerðarinnar. Hún minnir á ábyrgð ráðuneytisins skv. 18. gr. hennar en þar segir, með leyfi forseta:

„Ráðuneyti ber ábyrgð á því að forstöðumaður grípi til nauðsynlegra úrræða til þess að ráða bót á rekstrarvandanum. Það getur sett forstöðumanni og eftir atvikum stjórn stofnunar tímafrest til þess að bregðast við fyrirmælum sínum um úrbætur.“

Þá skal einnig bent á að í þeim tilfellum sem frávik frá fjárheimildum eru meiri en 4% skulu gefnar ítarlegar upplýsingar um hvaða fyrirmæli voru gefin til að ná markmiðum fjárheimilda.

Meiri hluti fjárlaganefndar hefur einnig talið mikilvægt að styrkja yfirferð þingsins á lokafjárlögum. Má í þeim efnum minna á að í þingskjali 1084 við umræðu lokafjárlaga fyrir árið 2006 benti meiri hlutinn á að u.þ.b. tíu ár eru liðin síðan lög um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, tóku gildi. Með þeim var mörkuð skýr stefna um efni fjárlaga, fjáraukalaga og lokafjárlaga.

Lögð var rík áhersla á að allar fyrirsjáanlegar fjárráðstafanir kæmu fram í fjárlögum. Í fjáraukalögum innan hvers fjárhagsárs væri síðan fjallað um þær fjárráðstafanir sem ekki er hægt að sjá fyrir við afgreiðslu fjárlaga. Fjáraukalög skyldu samkvæmt þessu fyrst og fremst snúast um ófrávíkjanleg málefni og ófyrirséð útgjöld en síður um rekstrarvanda einstakra ríkisstofnana. Aðrar fjárhagsráðstafanir ættu eftir atvikum að koma til umfjöllunar við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta fjárhagsár eða við afgreiðslu lokafjárlaga fyrir síðasta fjárhagsár.

Í 7. gr. fjárreiðulaga er fjallað um framlagningu ríkisreiknings. Þar segir að fjármálaráðherra skuli leggja endurskoðaðan ríkisreikning næstliðins reikningsárs fyrir Alþingi eigi síðar en tveimur vikum eftir að þing kemur saman að hausti. Í almennum athugasemdum við frumvarp til fjárreiðulaga undir yfirskriftinni „Ríkisreikningur“ segir svo orðrétt, með leyfi forseta:

„Auk þeirra breytinga á efni og gerð ríkisreiknings sem að framan er lýst er lagt til að framlagning ríkisreiknings á Alþingi og umræða um hann verði með öðru sniði en verið hefur. Sú skylda er lögð á fjármálaráðherra að leggja fram endurskoðaðan ríkisreikning eigi síðar en tíu dögum eftir að þing kemur saman að hausti. Með þeim ríkisreikningi skal honum til staðfestingar leggja fram frumvarp til lokafjárlaga vegna sama fjárhagsárs. Í samþykkt Alþingis á lokafjárlögum felst samþykkt á ríkisreikningi og er fjárhagsárinu þar með formlega lokað. Í þessu er einnig fólgin sú breyting að ríkisreikningur er ekki framvegis samþykktur með sérstökum lögum.“

Samkvæmt 45. gr. fjárreiðulaga, nr. 88/1997, skal ríkisreikningi fylgja frumvarp til lokafjárlaga honum til staðfestingar. Þar skal leitað heimilda til uppgjörs á skuldum eða ónotuðum fjárveitingum sem ekki eru fluttar milli ára. Jafnframt skal leggja fram sérstaka skrá ásamt skýringum yfir geymdar fjárheimildir og um þá aðila sem farið hafa fram úr fjárheimildum ársins. Heimilt er að greiða slíka umframgreiðslu af fjárveitingu næsta árs. Einnig skal gerð grein fyrir ónýttum lántökuheimildum liðins árs.

Allt frá gildistöku fjárreiðulaganna hefur verið nokkrum erfiðleikum bundið að leggja fram ríkisreikning og lokafjárlög samhliða eins og lögin gera greinilega ráð fyrir. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur því einnig áherslu á að markvisst verði unnið að vinnu við gerð frumvarps til lokafjárlaga og því verði hraðað innan hvers árs þannig að leggja megi það fram samhliða ríkisreikningi. Tæknilega sýnist fátt því til fyrirstöðu. Meiri hluti fagnar þeirri formlegu breytingu sem forseti Alþingis stóð að á sl. vori að taka til umfjöllunar allar stjórnsýsluúttektir Ríkisendurskoðunar á formlegan hátt en það mun ekki hvað síst styrkja eftirlitshlutverk þingsins sem tengist m.a. framkvæmd fjárlaga. Hefur orðið nokkuð ágengt í þessum efnum að mati meiri hluta fjárlaganefndar sl. mánuði.

Hins vegar ber að leggja áherslu á að sameiginlegur skilningur um grundvallaratriði er varðar framkvæmd fjárlaga þarf að vera hverju sinni til staðar hjá þeim aðilum sem vinna að framkvæmdinni og/eða eftirlitinu. Á það virtist skorta að nokkru.

Það liggur fyrir að Ríkisendurskoðun hefur á undanförnum árum gert athugasemdir í skýrslum sínum við framkvæmd fjárlaga, að stofnanir hafi farið fram úr fjárheimildum án þess að gripið sé til aðgerða eins og reglur segja til um og ég hef ítrekað farið yfir. Þar af leiðandi, virðulegur forseti, ber að ítreka mikilvægi þess að endurrýna og gera úrbætur á verklagi sem miðar að því að framkvæmd fjárlaga sé með betri hætti en nú er. Niðurstaða fjölmargra skýrslna, greinargerða og yfirlita frá fjárreiðu- og eignaskrifstofa fjármálaráðuneytisins til fjárlaganefndar sýna að þess er þörf.

Fjárlaganefndin hefur tekið þátt í þessu átaki með fjármálaráðuneytinu og Ríkisendurskoðun. Er það von meiri hluta fjárlaganefndar að sú niðurstaða leiði að markvissari ríkisrekstri og meiri aga og festu í kerfinu en það eru þeir hlutir sem meiri hluti fjárlaganefndar Alþingis hefur leitað eftir.

Forseti Alþingis skipaði nýlega nefnd sem skilar á næsta ári skýrslu um þingeftirlit. Vonandi mun sú skýrsla leiða til þess að hlutverkin verði skýrari og framkvæmdinni fundinn farvegur. Í ljósi breytinga á römmum stofnana sem lagt er til í fjárlögum þessa árs verður sífellt erfiðara fyrir forstöðumenn að stýra fjármálunum. Stjórnunarleg og fjárhagsleg ábyrgð þarf því að fara sama og er vísað til áðurnefndrar reglugerðar nr. 1061/2004, um framkvæmd fjárlaga.

Einnig vill meiri hluti fjárlaganefndar minna á að þar sem skipuð er stjórn til að annast rekstur hefur stjórn stofnunar þær skyldur sem forstöðumenn hefðu ella. Þetta á t.d. við um E-hluta stofnanir ríkisins en fjárlaganefnd vinnur nú sameiginlega að gerð frumvarps um breytingar á lögum um Ríkisendurskoðun, nr. 86/1997, þar sem gert er ráð fyrir að við 1. mgr. 10. gr. bætist nýr málsliður sem heimili Ríkisendurskoðun að veita fjárlaganefnd Alþingis aðgang að þeim gögnum sem hún aflar samkvæmt 1. mgr. áðurnefndra laga. Nefndarmenn verða þá bundnir þagnarskyldu um þá vitneskju sem þeir fá í nefndinni ef ríkisendurskoðandi kveður svo á um. Þetta mun styrkja mjög aðkomu og eftirlitshlutverk Alþingis gagnvart E-hluta stofnunum. Ég mun nú gera örlitla grein fyrir einstaka tillögum sem skýrðar eru í nefndarálitinu en eins og kom fram í byrjun, virðulegi forseti, eru gerðar þær breytingartillögur samkvæmt sundurliðun 2 sem nema alls 1,36 milljörðum og samkvæmt fjárlögum versnar afkoman nokkuð. Hún var jákvæð í fjárlögunum fyrir þetta ár um 39,2 milljarða en verði þetta þ.e. niðurstaðan eftir 3. umr., svo fremi sem þessar tillögur verða samþykktar, versnar afkoman um 45,4 milljarða. Afkoma ársins ætti því að verða neikvæð um 6 milljarða.

Í þessum breytingartillögum er fjallað um nokkrar breytingar á 6. gr. sem er þá 4. gr. frumvarpsins. Í fyrsta lagi er heimild til fjármálaráðherra að stofna þrjú ný fjármálafyrirtæki á grundvelli 1. mgr. 1. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., og leggja hverju þeirra til 775 millj. kr. í stofnfé. Fjármálaráðherra gerði grein fyrir þessu á fundi nefndarinnar þann 12. nóvember sl. Hér er verið að leggja til að formfesta þann gjörning sem var farið í á grundvelli umræddra neyðarlaga þegar hinir þrír nýju ríkisbankar voru stofnaðir og þeim lagt til stofnfé upp á 775 millj. kr.

Þá er einnig breytingartillaga á grundvelli sömu laga að leggja sparisjóðum til allt að 14 milljarða kr. í stofnfé eða hlutafé og er þá um að ræða heimild um fjárveitingar úr ríkissjóði vegna þessa. Svo er heimild til að kaupa af Seðlabankanum þau viðskiptabréf sem bankanum hafa verið afhent til tryggingar á veðlánum bankans og annast uppgjör þeirra krafna eins og hagkvæmast þykir.

Það er einnig gerð tillaga um breytingu á lánsfjárheimild sem er þá 3. gr. fjáraukalaganna en 5. gr. í fjárlögunum. Í stað „234 milljónir“ komi: allt að 660 milljónir. Þá er, líkt og ég gerði grein fyrir í upphafi ræðu minnar, gerð … (ÁÞS: Milljarðar.) — Milljarðar. Í stað „234 þús. millj. kr.“ komi: allt að 660 þús. millj. kr. eða 660 milljarðar. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir að fylgjast jafn vel með og raun ber vitni. Það eru breytingartillögur varðandi fjármálahreyfingar og fjármögnun og það eru tölulegar breytingar í ljósi niðurstöðu breytingartillagna.

Ég vil þá rétt í lokin, virðulegur forseti, gera grein fyrir heildarbreytingunum eins og þær birtast á sundurliðun 2. Um er að ræða breytingar á lið fasteigna forsætisráðuneytisins um 17 millj. Gerðar eru breytingar á liðum er lúta að umboðsmanni barna upp á 5 millj. kr., Hagstofu Íslands upp á 16 millj. kr., símenntun og fjarkennslu upp á 100 millj. kr. Þá er gerð breytingartillaga um 30 millj. kr. til handa Slysavarnafélaginu Landsbjörgu þannig að dómsmálaráðuneytið geti fullnustað þann samning sem lýtur að björgunarskipum félagsins en þetta er þá greiðsla sem tengist árunum 2007 og 2008. Tillaga kom um styrkingu á rekstrargrunni lögreglustjórans á Suðurnesjum og sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli upp á 200 millj. kr. Síðan er tillaga um styrkingar á rekstrarstöðu öldrunarstofnana upp á 800 millj. kr. Þær eru sundurliðaðar í breytingartillögunum og mun ég ekki, virðulegur forseti, fara yfir það. Um er að ræða milli 20 og 30 öldrunarstofnanir vítt og breitt hringinn í kringum landið.

Í lokin er tillaga um styrkingu á rekstrargrunni endurhæfingarstöðvarinnar að Reykjalundi upp á 43,5 millj. kr. svo og liðnum „Flugvellir og flugleiðsöguþjónusta“ upp á 130 millj. en það er þjónustugreiðsla til Flugstoða. Síðan í lokin eru uppreiknaðar verðlagshreyfingar á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem tengjast tekjum ríkisins. Einnig er gert ráð fyrir því að það séu sérstök viðbótarframlög upp á 100 millj. kr. inn í jöfnunarsjóðinn. Þá að lokum styrking við viðskiptaráðuneytið vegna peningaþvættisverkefnis. Að lokum eru umræddar 549 millj. til Fjármálaeftirlitsins en ég gerði grein fyrir því í upphafi að það var viðbótarkostnaður sem féll á Fjármálaeftirlitið í framhaldi af neyðarlögunum nr. 125/2008 og það kom ítarlegt minnisblað sem var lagt fram á fundi nefndarinnar vegna þess og þessir hlutir sundurliðaðir.

Ég hef, virðulegur forseti, farið yfir helstu breytingartillögurnar. Ég sundurliðaði ekki sérstakar öldrunarstofnanir, hvorki er varðar hjúkrunar-, dagvistar- eða dvalarrýmin en í breytingartillögunum eru það á milli 20 og 30 stofnanir sem gert er ráð fyrir að fái rekstrarstyrkingu.

Ég hef fyrst og fremst eytt drjúgum hluta af ræðu minni í þau atriði sem tengjast framkvæmd fjárlaga og það má kannski segja sem svo, virðulegur forseti, að ég geri það hverju sinni þegar ég mæli fyrir nefndarálitum hvort sem er um fjárlög, fjáraukalög eða lokafjárlög og vil ítreka það að ég held að dropinn holi steininn í þeim efnum. Það skiptir Alþingi verulegu máli að fá aðgang að upplýsingakerfunum. Það skiptir Alþingi verulegu máli að geta fylgst með því hvort framkvæmd fjárlaga á grundvelli reglugerðarinnar og/eða fjárreiðulaganna sé með réttum hætti. Það skiptir Alþingi líka miklu máli að hafa tækifæri til þess að fylgjast með rekstri E-hluta stofnana ríkisins sem ég nefni stundum ríki í ríkinu en þær eru núna orðnar um 25 talsins og fjölgaði nýlega um þrjár vegna hinna nýju ríkisbanka.

Að öðru leyti vil ég nota tækifærið og þakka starfsfólki nefndasviðs fyrir snörp og góð vinnubrögð varðandi fjáraukalögin. Ég vil þakka öllum nefndarmönnum í fjárlaganefnd fyrir samstarfið og við lukum nefndarstörfum í morgun kl. hálftíu. Þetta er búið að vera langt og strangt ferðalag á okkur síðustu vikur og mánuði. Nóttin hefur verið drjúg í þeim efnum og ég ætla sérstaklega að þakka varaformanni nefndarinnar, hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir ánægjulegt samstarf og samveru í ótalmargar klukkustundir (ÁÞS: Dag og nótt.) á sl. mánuðum, dag og nótt.