136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[16:16]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Háskólinn á Akureyri var ekki einkavæddur. Var hann það? Nei, það var sérstaklega tekið á málefnum Háskólans á Akureyri og hann er í góðum farvegi núna. Og Háskólinn á Hólum, þau mál sem hafa verið dregin fram þar, m.a. í skýrslu nokkurra nefndarmanna, eru einmitt með þá hagsmuni í huga að efla starfið á Hólum. Það er ekkert útilokað í því, ef við þurfum að tengjast hagsmunaaðilum betur með því að tengja þá inn í starfið, þá gerum við það. Við eigum ekki að útiloka eitt eða neitt rekstrarform ef það verður til þess að styrkja starfsemina á viðkomandi sviði. Annað eru bara fordómar, annað rýrir möguleika viðkomandi starfsemi til að efla sig.

Svo það sé sagt skýrt varðandi Hvanneyri þá hef ég ekki hug á því að fara í að einkavæða Hvanneyri en ég hef hug á því að styrkja starfsemina á Hvanneyri og þá er ekkert undanskilið, hvort sem við erum að tala um samstarf eða sameiningu við aðra háskóla. Við þurfum að efla áfram rannsóknarstarfið sem fer fram á Hvanneyri en það verður ekki gert að óbreyttu. Við sjáum að ár eftir ár er stofnunin rekin með halla. Það þarf að taka á slíku og það verður að sjálfsögðu gert með víðtæku samráði. Ég hef hugsað mér að fara m.a. í að leggja fram frumvarp um afnám laga um búnaðarfræðslu og í tengslum við það verður málum þessara skóla, Hvanneyrar og Hóla, skipað með öðrum hætti en nú er og starfsskilyrðum breytt og þeir settir undir lög um háskóla, rammalöggjöf um alla háskóla á landinu þar með talið þær kröfur sem gerðar eru til kennslu og rannsókna innan háskólanna og það skiptir mjög miklu máli.