136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[16:17]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er mesti misskilningur hjá hæstv. ráðherra að þetta snúist um að það vanti lög. Ég geri í sjálfu sér enga athugasemd við það þótt skólarnir, úr því sem komið er, fari undir rammalög en það er ekki afsökun fyrir því að taka ekki á fjárhagsvanda skólanna eins og hann er í dag og hefur legið fyrir. Ég veit ekki betur en að viðkomandi skóli og skólayfirvöld hafi gert mjög ítarlega grein fyrir því hvernig þessi halli er tilkominn og hvernig staðan er með hann, það þarf enga lagabreytingu til að taka á honum.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég vona að hæstv. ráðherra geti komið að þessum málum og geri það ekki bara örlítið heldur kannski með talsvert jákvæðari hætti, þannig að skólarnir, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri fái yfirlýsingu um að hann megi halda áfram á þeirri braut sem hann hefur verið í sínu öfluga starfi þó svo að hann hafi færst milli ráðuneyta. Það þarf ekki að setja ný lög til að koma til móts við þá stöðu.

Ég vil áfram inna hæstv. menntamálaráðherra eftir því hvernig hún hyggst koma að málum til að standa vörð um þessar menntastofnanir landbúnaðarins og dreifbýlisins sem þær eru tvímælalaust. Það veltur á miklu fyrir þann atvinnuveg og dreifbýlissamfélagið að þær séu öflugar áfram og ráði við þau margþættu hlutverk sem þeim verða falin (Forseti hringir.) á næstu tímum.