136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[16:45]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er eftir atvikum sæmilega sáttur við ýmislegt sem hæstv. ráðherra upplýsti hér en fannst þó í lokin að hæstv. ráðherra væri komin í hálfgert tímahrak og vil eiginlega gefa henni tækifæri til þess að bæta um betur. Mér finnst ýmislegt hafa skýrst við það sem hún sagði að það væri verið að skoða fyrirkomulagið með þrenns konar hætti, þ.e. kennslu, samninga, rannsóknir og hins vegar tengingu við hagsmunaaðila. Ég held að það sé í sjálfu sér ágætt, sérstaklega að hagsmunaaðilar komi að þessu með einhverjum hætti og hafi áhrif í þá veru sem þeir telja nauðsynlegt.

Ég vil einnig ítreka að það þarf sérstaklega að huga að hlutverki skólans en eins og hæstv. ráðherra vék réttilega að er hann bæði á framhaldsskólastigi og á háskólastigi.

Ég vænti þess að ég megi ráða þannig í orð hæstv. ráðherra að það muni ekki margar vikur líða af næsta ári þar til kominn verði á einhvers konar samningur sem tryggir það að þessi skóli geti haldið áfram starfsemi sinni og þar þurfi menn ekki að grípa til örþrifaráða eins og að fækka fólki eða jafnvel að stytta kennslutímann að vori.