136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[16:46]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þannig að það sé ljóst þá er engin áætlun um að skera niður starfsemina á Hvanneyri þannig að þar verði ekki áfram háskóla- og vísindastarf, það er alveg tryggt.

Hins vegar verða líka að liggja fyrir fyrirætlanir um það hvernig við sjáum Hvanneyri vaxa og þróast til lengri tíma litið. Þess vegna var ég í lok ræðu minnar, reyndar komin í svolitla tímaþröng, að nefna starfsemina á Keldum sem hefur verið í skoðun hjá okkur í ráðuneytinu, hvernig hægt væri að tengja þá merkilegu rannsóknarstarfsemi sem þar fer fram sem hugsanlega miðstöð dýralækninga annars vegar inn í Hvanneyri og hins vegar inn í Háskóla Íslands. Þetta er allt til þess að treysta undirstöður rannsókna og vísinda hjá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri.

Við munum að sjálfsögðu halda áfram að vinna af fullum krafti að samningi milli ráðuneytisins og Hvanneyrar. En við þurfum að skilgreina námið betur, nákvæmlega hvað á lögum samkvæmt að falla innan samningsins, hvað er háskólastarf og vísindastarf annars vegar og hvað fellur undir framhaldsskólastigið hins vegar. Þetta verðum við einfaldlega að gera og erum að gera það í góðu samráði og samvinnu við skólann.