136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[17:15]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hv. formann fjárlaganefndar um tvö mál. Annars vegar langar mig að fá skýringar á því af hverju ekki var gengið hreint til verks og allur halinn af heilbrigðisstofnunum og öldrunarstofnunum klipptur af í stað þess að skera einungis niður tvo þriðju hluta eins og hér er gert.

Mig langar til að spyrja vegna þess að mér sýnist að ef allur halinn á Landspítalanum hefði verið tekinn núna hefði þurft að bæta við 750 millj. kr. Ætli það sé þá ekki annað eins fyrir allar aðrar stofnanir í landinu. Þá hefði þurft að bæta í fjáraukalögin 1–2 milljörðum kr. til þess að stilla heilbrigðisstofnanir okkar og öldrunarstofnanir, sem hafa verið að burðast með langan skuldahala á undanförnum árum, á núll. Þá hefðu þær getað farið skuldlausar inn í þann mikla niðurskurð sem blasir við á næsta ári og jafnvel enn meiri niðurskurð árið þar á eftir.

Ég held, frú forseti, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi ekki bannað aukinn halla á þessu ári. Ég held að mögulegt hefði verið að grípa til þessa ráðs án þess að fara inn í samninginn við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Mig langar að spyrja hv. formann fjárlaganefndar hver skýringin er á því að þetta var gert? Af hverju var ekki gengið hreint til verks og menn skildir eftir með hreint borð?

Í öðru lagi langar mig til að spyrja aðeins út í SÁÁ og þá sérstaklega göngudeildarstarfsemina. SÁÁ hefur allt þetta ár rekið göngudeildir fyrir alkóhólista, aðstandendur þeirra, foreldra, maka og börn og reyndar fíkla líka, bæði í Reykjavík og á Akureyri, án þess að samningur við ríkið þar um væri í gildi.

Í Reykjavík hefur SÁÁ rekið göngudeild allt frá árinu 1980 og á Akureyri allt frá því 1990. Samningar um þennan rekstur runnu út um síðustu áramót og menn héldu þessum rekstri áfram í góðri trú, enda ekki óalgengt að samningar dragist og samningaviðræður gangi inn á næsta ár í svo flóknum samningum og dýrum. Það var heldur aldrei rætt um annað en að semja um þessa starfsemi, að henni yrði haldið áfram. Hins vegar var aðeins gerður þjónustusamningur um Vog, Staðarfell og Vík. Þá var sagt að peningarnir væri búnir og reynt var að finna einhverjar lausnir.

Mig langar til að eiga orðastað við hv. formann fjárlaganefndar um SÁÁ. Það slitnaði upp úr samningaviðræðum milli ríkisins og SÁÁ varðandi þetta atriði, göngudeildirnar, í ágúst eða september sl. þegar allt í einu var tilkynnt af hálfu ríkisins að SÁÁ fengi engar fjárveitingar og engan samning vegna ársins 2008. Samningaviðræðum var eitthvað haldið áfram vegna ársins 2009 og mér sýnist nú, þegar ég skoða fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2009, að þar hafi SÁÁ lent mjög alvarlega undir hnífnum og þessi starfsemi þá væntanlega sérstaklega.

Mig langar að vita hvort ekki hafi komið til álita í fjáraukalögunum að bæta SÁÁ með einhverjum hætti, jafnvel allt að tveimur þriðju eins og gert er með aðrar heilbrigðisstofnanir, hallann sem hefur skapast vegna þeirrar stöðu sem er í rekstri göngudeildanna.