136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[17:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að víkja að báðum þessum spurningum í tveimur stuttum andsvörum.

Fyrst að SÁÁ: Nú er það þannig að SÁÁ er sjálfseignarstofnun og með beinan samning, eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir vék að, en ekki A-hluta stofnun — ekki er eins farið með umræddar sjálfseignarstofnanir sem hafa samning og A-hluta stofnanirnar. Viðkomandi sjálfseignarstofnanir hafa þurft að taka lánin sjálfar ef þær fara fram úr og eiga í raun sjóðsfærsluna sjálfa.

Þegar fjáraukalagafrumvarpið var lagt fram fyrir rúmum hálfum mánuði var ljóst að ekki voru neinar tillögur um að styrkja rekstrarstöðu SÁÁ eða annarra sjálfseignarstofnana. Fyrst og fremst var vikið að sjúkrastofnunum sem heyra undir A-hlutann eða ríkissjóð sjálfan.

Við í fjárlaganefnd fórum yfir þessa stöðu bæði með ráðuneytunum og síðan ýmsum öðrum sem tengjast þessum þáttum. Niðurstaða okkar, í ljósi þeirra upplýsinga sem við fengum um samkomulag og samninga, var sú að leggja ekki fram breytingartillögu við tillögu fjármálaráðherra eða ríkisstjórnarinnar, heldur fara fram með þetta óbreytt. Það var gert í ljósi þess að menn mundu klára að fara yfir þetta samkomulag eins og hv. þingmaður vék að varðandi dagdeildirnar og þess vegna væri hægt að leita til frekari styrkinga í ríkissjóð á hvaða tíma sem er líkt og við höfum lýst hér varðandi önnur mál.

Ég vona að þetta svari þessum hluta, þ.e. (Forseti hringir.) gagnvart umræddri sjálfseignarstofnun, en sjálfseignarstofnanir eru fjölmargar. Hins vegar var tekin ákvörðun um að fara fram með (Forseti hringir.) breytingu varðandi öldrunarstofnanir sem (Forseti hringir.) velflestar eru sjálfseignarstofnanir. (Forseti hringir.)