136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[17:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að í þessu sambandi sé ljóst að fjölmargar sjálfseignarstofnanir sinna ýmiss konar þjónustu fyrir ríkið með samningagerð, hvort sem það er SÁÁ, öldrunarstofnanir eða ýmiss konar aðrar stofnanir. Við þekkjum þetta úr menningarmálunum og jafnvel fræðslumálunum og hinum og þessum málaflokkum.

Ég finn ekki fyrir öðru en að ríkur vilji sé til þess að halda áfram samstarfi við SÁÁ, ég skynja það ekki sem svo að einhverjir séu andsnúnir því, enda hlýtur maður að spyrja sjálfan sig að því hvar annars staðar úrræðin séu í íslensku samfélagi. Þau eru að einhverju leyti inni á Landspítalanum en á velflestum öðrum stöðum eru þau inni í þessum sjálfseignarstofnunum og við vitum öll hvað SÁÁ hefur gert fyrir íslensku þjóðina í þeim efnum. Ég vonast til þess að menn nái að endurrýna þetta samkomulag og fara yfir það og horfi til næstu mánaða eða vikna með það.

Ég vil hins vegar segja þessu tengt varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og rekstrarhallann og annað að það tengist þessu sama því að á sumum stöðum hafa sjálfseignarstofnanirnar farið út í útgjöldin en á öðrum stöðum hefur ríkið þegar farið út í útgjöldin. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn metur frumvörpin og breytingarnar á sjóðsgrunni eða greiðslugrunni miklu frekar en rekstrargrunni. Það skiptir því í sjálfu sér kannski ekki svo verulegu máli gagnvart A-hluta stofnunum hvort halinn sé klipptur af því að þá þegar hefur ríkissjóður farið út í útgjöldin. Sjóðshreyfingin hefur átt sér stað og hún liggur í sjálfu sér neikvæð.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn horfir miklu frekar á næsta ár í sjóðshreyfingunni (Forseti hringir.) en í rekstrarheimildinni sem er að vísu nátengd (Forseti hringir.) enda sjá menn það, virðulegi forseti, ef þeir skoða fjárlögin (Forseti hringir.) að þá eru þau bæði sett upp í rekstrargrunni og (Forseti hringir.) einnig í greiðslugrunni eða sjóðsgrunni. Ég get farið betur yfir þetta (Forseti hringir.) síðar með hv. (Forseti hringir.) þingmanni.