136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[17:40]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni um að það eru ýmis tækifæri fólgin í þeim tíma sem við höfum nú kallað yfir okkur til þess að breyta samfélaginu. Ég get líka tekið undir með hv. þingmanni að þörf er á því að breyta því í átt til heiðarlegra og gegnsærra samfélags. En ég harma um leið að hv. þingmaður skuli hafa stutt þá ríkisstjórn sem á síðustu árum og jafnvel áratugum hefur byggt upp það óheiðarlega og ógegnsæja samfélag sem við höfum þurft að búa við.

Ég kem í andsvar í tilefni orða hv. þingmanns um Vinstri hreyfinguna — grænt framboð og okkar hugmynd varðandi breytingu á verðtryggingu. Hv. þingmaður sagði að verðtrygging væri flókið mál og ég vil segja: Ég veit það vel og það vitum við öll sem erum í þessum sal að það er ekki einfalt að ráðast í breytingar á verðtryggingunni.

Ég vil hins vegar segja að hugmynd okkar vinstri grænna að breytingu á verðtryggingunni er tekin beint frá ríkisstjórninni, sem hv. þingmaður styður, nefnilega úr 2. gr. laga sem verið var að samþykkja hér fyrir helgina eða á laugardaginn um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þar kom ríkisstjórnin með þá tillögu að breyta búvörusamningi með þeim hætti að vísitalan í honum verði fryst við þær forsendur sem fjárlagafrumvarpið reiknaði með, þ.e. 5,7%. Við hugsuðum með okkur að úr því að ríkisstjórnin getur breytt forsendum búvörusamnings með þessum hætti hljótum við líka að geta breytt tímabundið vegna þeirrar neyðar sem er í samfélaginu þeim skuldbindingum sem eru í samningum milli þeirra sem hafa lánað íbúðareigendum og þeirra sem eiga þá fjármuni.

Ég segi því við hv. þingmann: Farið var í smiðju til ríkisstjórnarinnar, sem hv. þingmaður styður, þegar við sóttum þá hugmynd sem við lögðum fram hér, (Forseti hringir.) vinstri græn, til þess að tryggja að íbúðareigendur (Forseti hringir.) eigi meiri möguleika á því að bjarga húsnæði sínu (Forseti hringir.) við þær aðstæður sem nú eru uppi.