136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[17:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessar spurningar. Í fyrsta lagi að ég hafi stutt ríkisvald sem hefur byggt upp ógagnsætt þjóðfélag. Það er búið að gera heilmikið gagnsætt í þjóðfélaginu. Bankarnir voru einkavæddir og það losaði heilmikið um það sem var í gangi þar áður. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður þekkti biðstofur bankastjóra og allar reddingarnar sem voru í kringum lánveitingar eða lífeyrisréttindi bankastjóra. Ég þekki hvernig það var. (Gripið fram í.) Það var ekki sérstaklega fögur lesning.

Því miður brugðust ákveðnir eftirlitsþættir og því miður hafa komið í ljós veilur í lagasetningunni sem mér finnst að við þurfum að breyta.

Varðandi búvörusamninginn er hann hækkaður um 5,7% á meðan allir aðrir launþegar fá enga launahækkun, sumir launalækkun og aðrir missa vinnuna. Það má kannski segja með bændur að þeir hafa ákveðinn kostnað sem vex í rekstrinum og þessi hækkun sé til að mæta því en flestir launþegar í landinu þurfa að sætta sig við launalækkun eða alla vega launastopp.

Svo vil ég benda á að búvörusamningurinn er bara til nokkurra ára og hann er tekinn upp reglulega. Það gerist ekki með lánveitingar frá lífeyrissjóðunum. Það gerist ekki með verðtryggðan lífeyri eða ef eignir lífeyrissjóðanna eru skertar með því að verðtrygging þeirra hefur verið skert. Stærsti eigandi verðtryggðra krafna á Íslandi eru lífeyrissjóðirnir og þeir fleyta þeirri verðtryggingu beint yfir til lífeyrisþeganna. Ef verðtryggingin er skert hjá lífeyrissjóðunum verða þeir að skerða um leið lífeyri til lífeyrisþeganna sem margir hverjir hafa ekkert voðalega mikið fé nema náttúrlega hjá ríkinu. Þar eru sumir með mjög góðan rétt í B-deildinni en þau réttindi eru pikkföst og tryggð með lögum frá Alþingi.