136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[17:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Árið 2003 greiddi ég atkvæði með því frumvarpi sem þá var samþykkt vegna þess að það einfaldaði og staðlaði réttindi þingmanna. Réttindi þingmanna þar áður voru afskaplega flókin og maður þurfti að liggja yfir þeim í marga klukkutíma til að skilja þau. Þau voru stöðluð og þess vegna greiddi ég atkvæði og þau voru auk þess skert hjá þingmönnum. Hins vegar voru kjörin bætt hjá ráðherrum og formönnum flokka en það er önnur ella. Ég greiddi atkvæði með frumvarpinu vegna þess að réttindi þingmanna almennt voru skert. Ég var á móti forréttindakerfinu og það hefur ekkert breyst og þess vegna óskaði ég eftir því að fá leyfi Alþingis til að greiða í annan lífeyrissjóð að eigin vali þannig að í ljós kæmi hvers virði réttindin eru.

Hv. þingmaður talar um að menn geti haft breytilegt iðgjald í öllum lífeyrissjóðum. Mér þætti gaman að sjá atvinnulífið í dag bæta á sig heilmiklum iðgjöldum, hækkandi iðgjaldaprósentu, í þessum vandræðum. Það getur enginn nema ríkið og ríkið getur það ekki heldur, frú forseti, nema með því að hækka skatta á sama fólkið og sætir skerðingu. Mér þætti gaman að sjá hv. þingmann þegar það allt saman gerist og alla þá umræðu sem kæmi þá upp. Ég vara við því og ég vil gjarnan að þetta sjáist fyrir nú þegar.

Varðandi það að þetta sé ekki sérréttindakerfi, kerfið í sjálfu sér er ekki sérréttindi. Munurinn er sá að búið er að byggja upp kerfi sem er þannig að iðgjald ríkisins hækkar sjálfvirkt ef sjóðirnir lenda í vandræðum á sama tíma og kjör fólks sem er að borga þetta, 80% af kjósendum okkar, skerðast. Þá þarf það að borga meiri skatta fyrir opinbera starfsmenn. Það verður áhugavert að upplifa spennuna sem þá kæmi upp, bara svo að hv. þingmaður viti það.

Ég hef í sjálfu sér aldrei gagnrýnt ríkisstarfsmenn en ég hef gagnrýnt stjórnarfyrirkomulagið hvernig kosið er í stjórnir lífeyrissjóðanna og ég spyr hv. þingmann: Hvenær var hann eiginlega kosinn í stjórn LSR og hver kaus hann?