136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[18:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er afskaplega leiðinlegt að heyra í tvígang í umræðu orð eins og „vælandi“. Ég held að ég sé ekkert að væla. Ég flutti breytingartillögu um að þingmenn sem þess óskuðu gætu valið sér annan lífeyrissjóð en þessi lífeyrisréttindi þingmanna, það var það eina, og að þeir fengju launauppbót sem því næmi til að varpa ljósi á og gera gagnsætt hvers virði lífeyrisréttindi þingmanna eru, líka hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, líka hjá A-deildinni. Það var fellt. Ég velti því fyrir mér af hverju í ósköpunum greiddu menn atkvæði gegn því. Ég velti vöngum yfir því, ræða mín gekk út á það, ég var ekkert að væla eitt eða neitt. Mér finnst afskaplega ómálefnalegt þegar menn tala svona.

Varðandi stjórnarkjör hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, það getur vel verið að það sé alveg fullkomlega lýðræðislegt en ég man ekki eftir því að ég hafi nokkurn tíma kosið hv. þingmann sem stjórnarmann yfir mitt lífeyrisfé og ég veit ekki til þess að nokkur einasti þingmaður hafi gert það. Ég veit ekki til þess að fjöldinn allur af opinberum starfsmönnum komi að því vali, því að það er stjórn BSRB sem kýs fulltrúa sína í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, þá sem ekki eru skipaðir af ráðherra, og lýðræðið er ekki neitt. Af hverju í ósköpunum kjósa ekki sjóðfélagar sjálfir sína stjórn, þá snillinga sem þeir telja að fari best með fé þeirra? Það skiptir fólk verulegu máli hvernig farið er með þetta fé, nema náttúrlega LSR því að þar borgar ríkið ef illa fer. Ríkið borgar ef illa fer og ég veit ekki til þess að neinn hafi hætt þar í stjórninni. Hjá bönkunum hættu menn þó, alla vega bankastjórarnir, og hluthafarnir töpuðu öllu sínu. Þarna tapar enginn neinu nema ríkið, ekki einu sinni sjóðfélagarnir. En hjá hinum almennu sjóðum tapar fólkið, fólkið tapar af því að það er engin önnur eign á móti og engin ábyrgð.