136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

framhaldsfundir Alþingis.

[13:34]
Horfa

Forseti (Sturla Böðvarsson):

Ég óska alþingismönnum og starfsmönnum Alþingis gleðilegs árs. Jafnframt sendi ég landsmönnum öllum mínar bestu nýársóskir.

Á fundi forsætisnefndar í byrjun þessa árs var fjallað um starfsáætlun Alþingis. Niðurstaðan var sú að vinna áfram samkvæmt þeirri starfsáætlun sem mörkuð var við upphaf haustþings nema hvað varðar minni háttar breytingar sem þingmönnum hefur þegar verið greint frá.

Forsætisnefnd hefur einnig fjallað um útfærslu á sparnaðaraðgerðum sem Alþingi hefur ákveðið að grípa til í rekstri sínum í samræmi við samþykkt fjárlaga. Útgjöld Alþingis lækka verulega frá því sem verið hefur. Það mun óhjákvæmilega hafa ýmis áhrif á störf þingmanna og vænti ég þess að þingmenn hafi góðan skilning á þeirri framkvæmd sem fjárlög gera ráð fyrir.

Ég vil nota þetta tækifæri og senda héðan úr Alþingi nýkjörnum formanni Framsóknarflokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, hamingjuóskir með kjörið á landsfundi flokksins um síðustu helgi. Sömuleiðis óska ég þingmönnunum Birki J. Jónssyni og Eygló Harðardóttur til hamingju með kjör þeirra til forustu í Framsóknarflokknum. Þá vil ég þakka fráfarandi formanni, Valgerði Sverrisdóttur, fyrir gott samstarf á vettvangi þingsins þann tíma sem hún gegndi formennsku í Framsóknarflokknum.

Ég óska hv. alþingismönnum öllum velfarnaðar í störfum þeirra á þessu vetrarþingi.