136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

dagskrá fundarins.

[13:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil spyrja forseta hverju sæti sú dagskrá sem lögð er fyrir Alþingi þegar það kemur saman til funda eftir þinghlé um jól og áramót. Það vekur sérstaka athygli að hér skuli ekki í upphafi þings vera rætt um ástandið í samfélaginu og að ríkisstjórnin skuli til að mynda ekki sjá ástæðu til að gera Alþingi grein fyrir stöðu mála eftir að það hefur ekki verið að störfum eða til funda um sinn.

Ég vil spyrja hæstv. forseta: Barst engin ósk um það frá ríkisstjórninni að því yrði þannig hagað að við upphaf þingfunda yrði gefið svigrúm til að fara yfir stöðu mála og ræða hvernig hlutirnir standa nú í byrjun árs? Það vekur mikla furðu t.d. að 4. mál á dagskrá þessa fundar, fyrsta mál á eftir tveimur stjórnarfrumvörpum, skuli vera frumvarp um brennivín í búðir. Hverju sætir að flutningsmenn þessa máls skuli ekki sjá sóma sinn í að kalla það til baka? Hverju sætir að forseti hefur það í sérstökum forgangi? Ég held að þjóðin hljóti að spyrja sig: Hvað er forseti Alþingis og hvað er ríkisstjórnin að hugsa? Og ég verð að segja, forseti, að mér finnst þetta snautlegt upphaf á þingstörfunum með hliðsjón af aðstæðum í þjóðfélaginu eins og við heyrum líka hér utan við þinghúsið.