136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

dagskrá fundarins.

[13:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta eru engir venjulegir tímar sem við lifum. Óundirbúnar fyrirspurnir eru að sjálfsögðu á sínum stað og það er góðra gjalda vert að einn þingmaður geti rætt við einn ráðherra í tvær mínútur og eina mínútu. En það dregur skammt þegar um er að ræða þá ógnaratburði sem hér eru í samfélaginu og allt í kringum okkur.

Ég tek svar forseta þannig að engin ósk hafi borist um það frá ríkisstjórn að gera með neinum sérstökum hætti grein fyrir stöðu mála við upphaf þingsins, að ríkisstjórnin ætli að vera frumkvæðislaus og aðgerðalaus og sofandi í þessum efnum eins og öðrum og þá er það auðvitað bara niðurstaðan. En það vantar ekki umræðuefnin, að líður ekki svo dagur að ekki reki á fjörur þjóðarinnar ný hneykslis- og vandræðamál. Það hefði t.d. verið tilvalið að ræða áformaðar handtökuaðgerðir sýslumannsins á Selfossi við dómsmálaráðherra en það stóð til að fara að handtaka upp undir 400 Sunnlendinga og hneppa þá í skuldafangelsi af miklum fantaskap. (Dómsmrh.: Fylgist þingmaður ekki með?) Mér er alveg sama, hæstv. dómsmálaráðherra, þó að þú sért búinn að bakka eitthvað með þetta. En ég segi það, virðulegi forseti, mér finnst þetta heldur snautleg byrjun á þinghaldinu með vísan til ástandsins í þjóðfélaginu.