136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

[13:59]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að senda formanni Samfylkingarinnar baráttukveðjur á Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi, með ósk um skjótan bata. Það veitir ekkert af öllum vinnandi höndum hér heima.

Hæstv. forsætisráðherra talaði um það áðan að menn spyrðu hér um ýmis mál og grautuðu öllu saman. Ég ætla að reyna að hafa þetta óskaplega skýrt, eins skýrt og ég get og horfa eingöngu mánuð aftur í tímann. Ég óska eftir því sem þingmaður að fá að vita hvað ríkisstjórnin hefur verið að undirbúa síðan þingið fór í jólaleyfi 22. desember.

Brot af því sem hefur komið fram í fjölmiðlum um ríkisstjórnina er þetta: Hæstv. iðnaðarráðherra kepptist við að búa til hégómafulla titla á sjálfan sig og orðið á götunni segir að hann sé í fýlu yfir því að fá ekki nógu mikla athygli vegna þess. Hæstv. heilbrigðisráðherra kynnir gerræðislegar hugmyndir sínar um heilbrigðiskerfið þar sem vissir auðmenn virðast eiga að gegna stóru hlutverki. Á sama tíma og ísraelsk stjórnvöld sprengja upp saklausa borgara á Gaza-svæðinu, þar með talin smábörn, snýst ríkisstjórnin í kringum sjálfa sig í sjálfhverfunni og kemur sér ekki saman um að fordæma framferði þeirra.

Virðulegi forseti. Ég vil því spyrja forsætisráðherra hvað ríkisstjórnin hafi í hyggju á komandi dögum og vikum því að tími til aðgerða styttist á degi hverjum. Að sama skapi stækkar sá hópur sem þarf nauðsynlega á aðstoð og aðgerðum að halda. Spurningarnar eru þessar: Hvernig hyggst ríkisstjórnin verja hag heimilanna? Hvernig á að gera fólki kleift að halda í þak yfir höfuðið á fjölskyldum sínum? Hvað hyggst ríkisstjórnin skapa mörg störf á næstu mánuðum og hvernig? Og að lokum: Hvaða fyrirtæki eiga að lifa og hvaða fyrirtæki eiga að deyja? Verður hugsanlega spurt um flokksskírteini þegar kemur að því vali eða aðild að einhverjum öðrum klúbbum?