136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

[14:01]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Hv. þingmaður spyr hér margra spurninga um ástandið og það er gott að Framsóknarflokkurinn hefur áhuga á því að fylgjast með hvað er í gangi og jafnvel að leggja eitthvað af mörkum til að leysa málin. Það mátti skilja á hinum nýja formanni Framsóknarflokksins að hann vildi taka þátt í því og ég vona að það eigi við um alla aðra þingmenn flokksins.

Við kynntum í ríkisstjórninni skömmu fyrir jól aðgerðaáætlanir sem lúta bæði að fyrirtækjum og heimilum. Þau atriði sem þar voru tilkynnt eru smám saman að koma til framkvæmda. Sumt af því hefur þurft að leysa með lagasetningu og var gert fyrir jólin og er smám saman að sjá dagsins ljós. Eitt atriði kom fram í máli hæstv. dómsmálaráðherra áðan, frumvarp um greiðsluaðlögun, og margt fleira er í pípunum.

Auðvitað gerast þessir hlutir ekki á einni nóttu og ríkisstjórnin hefur ekki setið auðum höndum í jólaleyfi þingsins heldur hefur hún þvert á móti undirbúið fjölmörg mál eins og koma mun í ljós.