136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

álit umboðsmanns um skipan dómara.

[14:03]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Fyrir rúmlega ári tók hæstv. fjármálaráðherra að sér að gerast setudómsmálaráðherra til að skipa fyrir um aðstoðarmann dómsmálaráðherra í embætti dómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra. Af öllum málatilbúnaði er ljóst að aldrei stóð annað til af hálfu ráðherra Sjálfstæðisflokksins en að ráðstafa þessu embætti á forsendum flokksins en ekki með hliðsjón af faglegum kröfum og hæfni. Það kemur reyndar ekki á óvart úr ranni Sjálfstæðisflokksins sem umgengst stjórnsýsluna eins og hann eigi hana og lætur sér í léttu rúmi liggja þótt stjórnsýslulög séu brotin.

Nú liggur fyrir álit umboðsmanns Alþingis þar sem m.a. er sagt að miklir annmarkar hafi verið á undirbúningi og málsmeðferð hæstv. fjármálaráðherra. Þannig staðfestir umboðsmaður Alþingis það sem sagt var um málið í umræðum hér á Alþingi á síðasta þingi í kjölfar þessa dæmalausa ráðslags ráðherrans. Stjórnsýsla ráðherrans fær falleinkunn og til þessa hefur hann bara yppt öxlum og látið eins og ekkert hafi í skorist.

Það er bara engin þolinmæði í samfélaginu gagnvart svona stjórnsýslusubbuskap ráðamanna, ekki lengur. Í viðtali við Stöð 2 fyrir ellefu dögum sagðist ráðherrann ekki enn hafa mótað sér endanlega afstöðu til álitsins en hann muni skoða það og sjá svo til með framhaldið. Nú liggur fyrir að ráðherrann hefur farið á svig við stjórnsýslulög og misboðið réttlætiskennd almennings. Ég vil því krefja hæstv. fjármálaráðherra svara um hvort hann hafi ákveðið hvernig hann hyggst axla ábyrgð, hvort hann telji ráðherrum heimilt að fara á svig við stjórnsýslulög, hvort hann telji að dómara eigi almennt að skipa á pólitískum forsendum og hvort hann hyggist segja af sér vegna embættisafglapa.